Í faðminum á leðurklæddum rokkara

Tony Iommi mundar gítarinn. Hann er greinilega smekkmaður þegar kemur …
Tony Iommi mundar gítarinn. Hann er greinilega smekkmaður þegar kemur að ilmvatnsgerð og gaman að sjá ilm- og rokkheimana mætast. AFP/Andy Buchanan

Þessa dagana dvelur ilmsérfræðingur Morgunblaðsins í Mílanó en hefði betur fundið sér íbúð í Napólí þar sem veðurfarið er mildara. Veturinn er dimmur og nístandi kaldur hér í Langbarðalandi og hitastigið a.m.k. tíu gráðum lægra en í suðurhluta Ítalíu.

Til að gera ítalska veturinn ögn bærilegri hef ég þrætt búðirnar í leit að hinum fullkomna ilmi. Eins og lesendur eflaust vita voru það Ítalirnir sem ruddu brautina í evrópskri ilmgerð og á 14. öldinni stóð enginn framar Feneyjum í að blanda ilmvötn úr jurtum, kryddum og olíum sem bárust þangað frá öllum heimshornum. Það var í gegnum hjónaband hinnar ítölsku Katrínar de´ Medici og Hinriks II Frakklandskonungs að Frakkar uppgötvuðu loksins ilmvatnsgerð og hafa þeir verið óstöðvandi alla tíð síðan.

Í miðbæ Mílanó úir og grúir af ilmvatnsbúðum. Villtist ég nýlega inn í verslun Xerjoff og fann þar loksins ilm sem hitti í mark. Mig vantaði einmitt þungan og þéttan vetrarilm til að lífga upp á vetrardrungann – annaðhvort það eða éta yfir mig af pizzu og panettone og koma þá feitur og pattaralegur undan vetri.

Karlmannleg hlýja

Ég hef áður fjallað um Xerjoff í lífsstílsdálki ViðskiptaMoggans en árið 2022 sagði ég lesendum frá undirstöðuilminum Erba Pjura sem er fersk og sterk ávaxta- og sítrusblanda í algjörum sérflokki. Á það við um alla ilmina frá Xerjoff að þeir eru mjög sérstakir, mjög kröftugir og alveg afskaplega dýrir en 50 ml flöskurnar þeirra kosta í kringum 275 evrur og 100 ml flöskurnar nærri 400 evrur sem er algjört rán. Þetta eru sumsé ilmir sem maður kaupir ekki að gamni sínu.

Þeir sem fylgjast vel með þessum pistlum mínum hafa sennilega komið auga á ákveðið þema í ilmvatnsleitinni hjá mér á undanförnum misserum, en ég hef sótt í djúpa og karlmannlega ilmi þar sem kryddaðir og sætir tónar kallast á: Fyrst var það Tobacolor frá Dior (hunang, tóbakslauf), svo Tonka Cola frá Mancera (kanill, kirsuber, kóla), þá Smoking Hot frá Kilian (epli, tóbak, vanilla) og Oud Affair frá Vilhelm Parfumerie (tóbak, sveskjur, leður). Ég var kominn á fremsta hlunn með að kaupa mér annaðhvort Angels´ Share frá Kilian (koníak, kanill), eða Baraonda frá Nasomatto (viskí, viður) en svo rakst ég á Iommi Monkey Special frá Xerjoff sem mér þykir slá þeim öllum við.

Eftir að hafa hugsað málið í nokkra daga skellti ég mér á 50 ml flösku sem jólagjöf til mín sjálfs, m.a. vegna þess að litla flaskan er alveg nógu dýr og þá hefur reynslan kennt mér að þegar ég kaupi ilmi í 100 ml pakkningu verð ég yfirleitt þreyttur á þeim löngu áður en flaskan klárast.

Monkey Special er þéttur ilmur; umvefjandi og hæfilega kryddaður, en líka ávaxtakenndur. Skemmtilegir romm-tónar og passíuávöxtur eru í efsta laginu en patchouli, kanill og leður tekur við og í undirlaginu tonkabaun, karamella og ambur. Anganin minnir sumpart á góða kryddköku en er um leið karlmannleg og með mikinn persónuleika. Eins og allir ilmirnir frá Xerjoff lifir anganin lengi á húðinni og hverfur ekki úr fatnaði nema við þvott.

Óður til apagítarsins

Það gerir góðan ilm enn betri að um er að ræða afrakstur samstarfs Sergio Momo, stofnanda Xerjoff, og rokkarans Tony Iommi, gítarleikara Black Sabbath. Iommi þróaði snemma með sér áhuga á vönduðum ilmum og þykir honum patchouli-jurtin einkennandi fyrir ilminn af rokkheimi 7. áratugarins. Nafnið á ilminum, Crazy Monkey, er síðan fengið að láni frá frægum Gibson-gítar sem Iommi skreytti með teikningu af apa og gaman að segja frá því að þeir Momo og Iommi fögnuðu samstarfinu með því að gefa út lítið rokkmyndband sem finna má á YouTube.

Xerjoff lét ekki nægja að blanda einn ilm með Black Sabbath-rokkaranum heldur framleiddi líka ilminn Iommi Deified sem er léttari og sætari, með epla- og saffrantónum en líka einhvers konar súrri angan sem ég kann ekki alveg við og minnir mig á lykt sem stundum er í sýningarsal bílaumboða.

Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans.

Iommi Monkey Special er ómótstæðilegur ilmur.
Iommi Monkey Special er ómótstæðilegur ilmur.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK