Fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að fjárfestingasjóðurinn BlackRock hefði sagt sig úr sameiginlegu loftslagsverkefni fjármálastofnana og Sameinuðu þjóðanna. Með þessu fylgir BlackRock í fótspor bankanna Morgan Stanley, Citigroup, Wells Fargo, Goldman Sachs og Bank of America sem gengu til liðs við átakið Net Zero Banking Alliance (NZBA) þegar því var hleypt af stokkunum árið 2021 en hafa, á undanförnum vikum, skorið á tengslin við verkefnið hver á fætur öðrum.
NZBA er ætlað að fá fjármálafyrirtæki til að haga fjárfestingum sínum og lánveitingum í samræmi við loftslagsmarkmið SÞ og leggja sitt af mörkum til að gera heiminn allan kolefnishlutlausan eigi síðar en 2050.
Það var Goldman Sachs sem reið á vaðið og sagði sig úr NZBA 6. desember síðastliðinn og fylgdu hinir bankarnir í kjölfarið. Enn eiga 142 bankar í 44 löndum aðild að NZBA en fáir þeirra komast nálægt bandarísku risabönkunum að umsvifum og áhrifum.
Bankarnir hafa lítið viljað tjá sig um hvers vegna þeir slitu samstarfinu við NZBA og hafa svör þeirra við fyrirspurnum fjölmiðla verið loðin og klisjukennd en hamrað er á því að bankarnir hafi eftir sem áður mikinn metnað á sviði loftslagsmála.
Fréttaskýrendur segja augljóst að bandarísku fjármálafyrirtækin séu að bregðast við breyttri vindátt í stjórnmálum þar í landi en eins og lesendur vita hafa repúblikanar styrkt stöðu sína til muna og sumir þeirra notað tækifærið til að gagnrýna fjármálageirann fyrir pólitíska réttsýni og dyggðaskreytingar. Er það talið hafa gert útslagið að nefnd neðri deildar Bandaríkjaþings birti skýrslu um miðjan desember þar sem ýjað var að því að þátttaka fjármálafyrirtækja í verkefnum á borð við NZBA jafngilti ólöglegu samráði og væri til þess fallin að hafa óeðlileg áhrif á starfshætti bandarískra fyrirtækja og bandarískan efnahag.
Þá hafa hluthafar höfðað mál gegn BlackRock og sakað sjóðinn um að bregðast skyldum sínum gagnvart hluthöfum með því að láta loftslagspólitík lita fjárfestingastefnu félagsins.
Greina má merki um breyttar áherslur víðar en hjá bandarískum fjármálafyrirtækjum, og ekki bara á sviði loftslagsmála. Er t.d. hægt að finna fjölmörg dæmi um greinilega stefnubreytingu hjá bandarískum stórfyrirtækjum þegar kemur að réttsýnispólitík.
Er skemmst að minnast breyttrar ritskoðunarstefnu Meta, móðurfélags Facebook og Instagram, en líkt og Morgunblaðið og Mbl.is fjölluðu um í síðustu viku hefur Meta ákveðið að láta notendum samfélagsmiðlanna það eftir að sannreyna staðreyndir í þeim umræðum sem þar fara fram, líkt og X (áður Twitter) hefur gert með góðum árangri. Meta hafði áður starfað með hópi samtaka og fréttaveitna sem tóku að sér staðreyndavöktunina en vinnubrögð þeirra þóttu hafa á sér mikla vinstrislagsíðu.
Meta lét ekki þar við sitja heldur tilkynnti líka nýjar áherslur í fjölbreytileikastefnu félagsins en innan Meta hefur starfað sérstakt teymi helgað fjölbreytileika, jöfnuði og inngildingu (e. diversity, equity, inclusion. DEI). Verður þessu teymi og öllum verkefnum þess slaufað, og fjölbreytileikakvótar ekki lengur látnir hafa áhrif á mannaráðningar né á kaup félagsins á vörum og þjónustu.
Skömmu áður hafði veitingarisinn McDonalds greint frá að félagið myndi láta af þeirri stefnu sinni að láta val á fólki í æðstu stjórnunarstöður hjá félaginu litast af hugmyndum um kvótabundinn fjölbreytileika, og að ekki yrði lengur gerð sú krafa til birgja að þeir láti starfsfólk sitt gangast undir fjölbreytnifræðslu (e. diversity training).
Í umfjöllun ABC News um þessi mál er minnt á að í kjölfar þess að George Floyd féll fyrir hendi lögreglumanna árið 2020 settu mörg bandarísk fyrirtæki stóraukinn kraft í að vera til fyrirmyndar í fjölbreytileika og jöfnuði og fannst sumum röddum á hægri vængnum að gengið hefði verið nokkrum skrefum of langt í réttsýninni. Þótti það marka tímamót – og sýna að pendúllinn væri tekinn að sveiflast til baka – þegar hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði árið 2023 að bandarískum háskólum væri ekki heimilt að beita jákvæðri mismunun þegar gert væri upp á milli umsækjenda. Háskólarnir höfðu margir stundað það um langt skeið að mismuna umsækjendum af asískum uppruna til að bæta líkur nemenda af öðrum kynþáttum á að hljóta skólavist.
Í nóvember tilkynnti Walmart að stórmarkaðakeðjan hygðist milda DEI-stefnu sína, sem áður fól í sér að láta þætti á borð við kynja- og kynþáttafjölbreytileika ráða valinu á birgjum, og eins myndi félagið ekki lengur taka þátt í mælingum sem gefa fyrirtækjum einkunn fyrir stefnu sína í málum LGBTQ-fólks.
Nýverið ákvað bílaframleiðandinn Ford einnig að taka ekki lengur þátt í fjölbreytileikaúttektum, sem og Brown-Forman sem m.a. framleiðir Jack Daniels-viskíið en áfengisrisinn tilkynnti jafnframt að DEI-frammistaða félagsins yrði ekki lengur lögð til grundvallar við útreikning launabónusa æðstu stjórnenda.
Bjórrisinn Molson Coors og raftækjaverslanakeðjan Lowe hafa sömuleiðis hætt þátttöku í samanburðarmælingum á fjölbreytileikastefnu fyrirtækja og þá tilkynnti Boeing um það í nóvember að fjölbreytileikadeild flugvélaframleiðandans hefði verið lokað.
Af öðrum stórfyrirtækjum sem hafa gert stefnubreytingu á svipuðum nótum má nefna mótorhjólaframleiðandann Harley-Davidson og landbúnaðartækjaframleiðandann John Deere.
Loks greindi Reuters frá því um helgina að stjórn Apple hefði hvatt hluthafa tæknirisans til að greiða atkvæði gegn tillögu um að binda enda á DEI-stefnu félagsins, en hluthafafundur verður haldinn í febrúarlok. Í tillögunni, sem lögð var fram af hugveitu íhaldsmanna, er vísað til nýlegra úrskurða hæstaréttar og bent á að fjölbreytnistefna Apple geti kallað kostnaðarsöm málaferli yfir félagið og valdið því orðsporstjóni.