Í viðtali við svissneska dagblaðið Tages-Anzeiger um helgina varar Ueli Maurer við því að alþjóðabankinn UBS sé orðinn svo stór að hann geti stefnt svissneska hagkerfinu í voða.
Maurer var fjármálaráðherra Sviss frá 2016 til 2022 og gegndi jafnframt embætti forseta árið 2019.
Hann segir að grípa þurfi til aðgerða til að draga úr þeirri áhættu sem fylgir miklum umsvifum UBS en eignasafn bankans er núna orðið svo stórt að það jafngildir tvöfaldri landsframleiðslu Sviss. Maurer bendir einnig á að engum öðrum svissneskum banka sé til að dreifa sem væri nógu sterkur og stór til að geta tekið yfir rekstur UBS ef bankinn lenti í vanda.
Eins og frægt er tók UBS yfir Credit Suisse þegar síðarnefndi bankinn lenti í ógöngum vorið 2023 og tókst með naumindum að forða svissneskum skattgreiðendum frá margra milljarða franka reikningi.
Maurer segir að bæði þurfi hluthafar UBS að taka réttar ákvarðanir um stjórnun og stefnu bankans og eins gæti verið þörf á að stjórnvöld grípi inn í með lagabreytingu eða hærri eiginfjárviðmiðum.