Isavia fékk aðstoð við að svara Skúla

Vörumerkjastjóri Isavia segir að markaðsráð vallarins beri ábyrgð á auglýsingunni, …
Vörumerkjastjóri Isavia segir að markaðsráð vallarins beri ábyrgð á auglýsingunni, sem er hátt í tvær mínútur að lengd. Morgunblaðið/Eggert

Skúli Gunnar Sigfússon, oftast kenndur við skyndibitakeðjuna Subway, skrifaði grein á vefmiðilinn Vísi á dögunum þar sem hann gagnrýndi Isavia, sem annast rekstur og þróun Keflavíkurflugvallar, harðlega fyrir bruðl með almannafé, en fyrirtækið frumsýndi nýja auglýsingu á undan áramótaskaupinu. Auglýsingatíminn er jafnan talinn dýrasti auglýsingatími ársins í sjónvarpi.

Auglýsingin var löng og segir Skúli í greininni að hún sé ein sú lengsta sem hann hafi nokkurn tímann séð í sjónvarpi á Íslandi, eða hátt í tvær mínútur að lengd.

Fullyrðir Skúli í grein sinni að þessi eina birting auglýsingarinnar hafi kostað rétt rúmar þrjár milljónir króna. Þá segir hann að framleiðslan hafi líklega kostað annað eins.

Isavia birtir svar við greininni á vef sínum. Þar segir að svokallað Markaðsráð Keflavíkurflugvallar beri ábyrgð á auglýsingunni, ekki Isavia eitt.

Standa saman

Í svari Isavia segir að á Keflavíkurflugvelli starfi fjöldi fyrirtækja sem þar reki fjölbreytta flóru verslana og veitingastaða. „Í gegnum tíðina hafa þessi fyrirtæki staðið saman að því að markaðssetja sína þjónustu á vettvangi Markaðsráðs Keflavíkurflugvallar.“

Segir í svarinu að mikilvægt sé að vekja athygli á því sem Keflavíkurflugvöllur hafi upp á að bjóða. Það sé nú gert með markaðsátaki undir yfirskriftinni: KEF – þar sem sögur fara á flug. „Liður í því er meðal annars auglýsing sem birt var á undan áramótaskaupi Sjónvarpsins.“

Þá segir í svarinu á vef Isavia að fyrirtækin sem koma að markaðsráðinu standi saman að þessari kynningu og fjármögnun hennar. „Þetta fyrirkomulag hefur lengi tíðkast á Keflavíkurflugvelli og tíðkast einnig í verslunarmiðstöðvum eins og Kringlunni og Smáralind.“

Athygli vekur að Isavia leitaði til auglýsingastofunnar Aton til að móta þetta svar sitt og virðist því ekki hafa verið fært um að svara án utanaðkomandi aðstoðar.

Í tölvupóstum sem Morgunblaðið hefur undir höndum segir Berglind Arnardóttir vörumerkjastjóri Isavia til dæmis: „Við höfum ráðfært okkur við fjölmiðlaráðgjafana okkar hjá Aton og niðurstaðan er að svara þessari ábendingu Skúla. Aton hefur aðstoðað okkur við að móta svar og munum við gefa það út á vefnum okkar eftir skamma stund,“ segir m.a. í tölvupóstinum frá 3. janúar sl.

Skúli birti aðra grein 6. janúar og gagnrýnir þar svör Isavia við fyrri grein sinni. Hann er ómyrkur í máli um flugvöllinn og herferðina, og telur að fénu hefði verið betur varið í að byggja upp flugvöllinn en þar vill hann meina að víða sé pottur brotinn. Einnig hvetur hann forstjóra Isavia sjálfan til að stíga fram og upplýsa heildarkostnað við auglýsingaherferðina í stað þess að beita fyrir sig undirmönnum.

Umræða enn í gangi

Berglind sendir póst á markaðsráðið í kjölfar þessarar seinni greinar og má ekki skilja hann öðruvísi en svo að Isavia ætli að sjá hvort þau komist ekki örugglega upp með að svara engum og láta málið sofna hægt og rólega. „Það er ennþá umræða í gangi sem við erum að fylgjast með og munum við sjá á næstu dögum hver næstu skref verða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK