Tilkynnt var í síðustu viku að undirrituð hafi verið viljayfirlýsing flutningafyrirtækisins Cargow Thorship og sveitarfélagsins Ölfuss um frekari uppbyggingu á hafnarsvæði sveitarfélagsins.
Stefnt sé að áætlunarsiglingum Cargow Thorship til Þorlákshafnar síðar á árinu. Fram kemur jafnframt að með samkomulaginu skuldbindi sveitarfélagið sig til þess að skapa við höfnina aðstöðu fyrir afgreiðslu vöruflutningaskipa og gámaþjónustu. Cargow Thorship skuldbindur sig til þess að nota aðstöðuna sem meginhöfn á Íslandi á nýjum siglingaleiðum sínum á milli Íslands og meginlands Evrópu.
Markmið sveitarfélagsins með þessu samkomulagi er að efla Þorlákshöfn enn frekar sem vöruflutningahöfn fyrir sjóflutninga til og frá landinu. Að sögn fulltrúa Cargow Thorship er Þorlákshöfn sérstaklega góð staðsetning enda styttri siglingaleið en til Reykjavíkur og samgöngur góðar.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Stefán H. Stefánsson í tilefni samninganna: „Við höfum vaxið jafnt og þétt í gámaflutningum til og frá landinu undanfarin 17 ár og höfum eflt okkar alhliða flutningaþjónustu verulega að undanförnu, í flugfrakt, sjó- og landflutningum, hérlendis og erlendis. Þetta er stórt og mikilvægt skref fyrir okkur til áframhaldandi vaxtar í sjóflutningum og sjáum við fram á að auka flutningagetu okkar verulega á komandi misserum og efla þjónustuframboðið til fyrirtækja, hvort sem er í inn- eða útflutningi. Við teljum Þorlákshöfn áhugaverðasta kostinn fyrir okkur til lengri tíma, með tilliti til siglingatíma og nálægðar við höfuðborgarsvæðið auk möguleika okkar til vaxtar.“ mj@mbl.is