Skagi, sem er móðurfélag tryggingafélagsins VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og Íslenskra verðbréfa, hefur verið í miklu umbreytingarferli í kjölfar sameiningar VÍS og Fossa, sem lauk í október 2023. Um síðastliðin áramót lauk formlega flutningi tryggingarekstrar í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. og er samstæðan því komin í sitt framtíðarhorf.
Unnið hefur verið að því að samþætta starfsemi eininga innan samstæðunnar með það að markmiði að nýta sóknarfæri sem myndast til tekjuaukningar samhliða því að halda aftur af kostnaðarhækkunum. Nýlegar aðgerðir til þess að auka hagkvæmni leiða til 300 milljóna króna árlegs sparnaðar þegar áhrif þeirra eru komin fram að fullu.
Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga segir í samtali við ViðskiptaMoggann það vera áskorun að tengja saman ólíka vinnustaðamenningu innan samstæðunnar.
„Það getur tekið tíma að samþætta ólíka menningu innan fyrirtækja. Það er talsverð áskorun en á sama tíma er það skemmtilegt verkefni sem gengið hefur vel hjá okkur. Við vinnum að því að nýta styrkleika hverrar einingar fyrir sig en skapa heildstæða liðsheild innan samstæðunnar,“ segir Haraldur.
Hann bætir við að samhliða þurfi samstæðan að ná fram bæði kostnaðar- og tekjusamlegð. Til þess þurfi að byggja upp öfluga samstæðu með skýra framtíðarsýn og tryggja að öll félögin rói í sömu átt.
„Það bendir flest til þess að við séum að fara inn í hagfelldara umhverfi þar sem verðbólga og vextir fara lækkandi. Það mun hafa góð áhrif á okkar starfsemi hvort sem það er tryggingarekstur, fjármálastarfsemi eða fjárfestingar. Við sjáum fyrir okkur að vaxa á öllum sviðum en þó sérstaklega í fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringu, þar sem rými til vaxtar er enn umtalsvert,“ segir Haraldur.
Spurður hvernig samkeppnisumhverfið á tryggingamarkaði horfi við honum í ljósi þess að Landsbankinn keypti TM segir Haraldur að nokkrir angar séu af þeirri umræðu.
„Í fyrsta lagi er tryggingarmarkaðurinn mjög þroskaður þótt hann þróist enn og taki einhverjum breytingum eins og aðrir markaðir. Við höfum til dæmis séð mikinn vöxt hjá Verði undanfarin ár og þar áður var Sjóvá í sókn. Í mínum huga er enginn vafi á því að eignarhald Landsbankans á TM mun hafa áhrif á samkeppnisumhverfið,“ segir Haraldur og bætir við að Landsbankinn, fyrir utan að vera ríkisbanki, sé jafnframt stærsti banki landsins með víðfeðmt útibúanet.
„Þar er klárlega hægt að nýta þennan þunga í sölu trygginga og það mun hafa áhrif á samkeppnisumhverfið. Það er þó rétt að halda því til haga að í fyrirtækjarekstri eru breytingar í rekstrarumhverfinu yfirleitt tíðar og það er partur af verkefninu að þróast í takt við það. Hjá VÍS stefnum við að því að vera með ánægðustu viðskiptavinina og okkar áherslur þar eru að vera best í þjónustu. Í mínum huga kemur mesta virðið sem við getum boðið viðskiptavinum okkar ekki fram í lægsta verðinu heldur að hafa rétta vernd. Tryggingar eru sérstök vara að því leyti að viðskiptavinurinn vonast til að þurfa aldrei að nota hana. Aftur á móti skiptir sköpum að vera með rétta tryggingavernd þegar áfall dynur yfir, og að hafa fengið rétta ráðgjöf,“ segir Haraldur.
Hann bætir við að kaupin muni skekkja samkeppnisstöðuna.
„Mér finnst umhugsunarvert að ríkisbanki sé að færa út kvíarnar í vátryggingastarfsemi. Ég vona innilega að þetta leiði ekki til þess að fjárhagslegur styrkur og slagkraftur ríkisins verði notaður til að búa til meðbyr fyrir eitt fyrirtæki í tryggingastarfsemi og skekkja þar með samkeppnisstöðu á þeim markaði. Það færi ekki vel á því,“ segir Haraldur.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum.