Í dag tilkynnir Sidekick Health um fækkun í starfsmannahópi félagsins um 55 stöðugildi sem jafngildir um 20%. Frá þessu er greint í tilkynningu frá félaginu.
Af þeim eru 22 stöðugildi hér á landi en önnur erlendis. Þetta kemur í kjölfar 100% aukningar á starfsmannafjölda á síðustu 18 mánuðum, einkum vegna yfirtöku á tveimur félögum í Þýskalandi sem hafa nú verið samþætt í rekstur Sidekick. Þessar aðgerðir miða að því að nýta samlegð, tryggja sjálfbæran vöxt og styðja við framtíðaruppbyggingu félagsins.
Félagið mun straumlínulaga rannsókna- og þróunarstarf auk stjórnendakostnaðar, en auka við fjárfestingu í sölu- og markaðsstarfi. Með þessu styrkir Sidekick grundvöll sinn til frekari vaxtar og eykur getu sína til að ná til fleiri notenda með meðferðum sínum sem er nú ávísað af yfir 16.000 læknum í Þýskalandi og dreift af sjúkratryggjendum og lyfjafyrirtækjum á alþjóðavísu. Að auki munu tvær nýjar meðferðir bætast við á árinu: annars vegar til að styðja við geðheilsu fólks sem greinst hefur með krabbamein og hins vegar til að bæta einkenni og lífsgæði kvenna á breytingaskeiði.
„Sidekick er staðfast í þeirri vegferð sinni að nýta tæknina til að bæta heilbrigðisþjónustu á yfir 20 sjúkdómasviðum. Við erum þakklát fyrir ómetanlegt framlag alls starfsfólks okkar, bæði núverandi og fráfarandi, til þeirrar vegferðar. Við munum tryggja að það einstaka samstarfsfólk sem við þurfum því miður að kveðja fái stuðning og úrræði til að takast á við næstu skref,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health.