Skagi, sem er móðurfélag tryggingafélagsins VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og Íslenskra verðbréfa, hefur verið í miklu umbreytingarferli í kjölfar sameiningar VÍS og Fossa, sem lauk í október 2023. Um síðastliðin áramót lauk formlega flutningi tryggingarekstrar í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. og er samstæðan því komin í sitt framtíðarhorf.
Spurður hvort hann telji nauðsynlegt að það eigi sér stað sameiningar á íslenska fjármálamarkaðnum segist Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, telja að slíkt væri af hinu góða.
„Íslenski fjármálamarkaðurinn er lítill, og í raun örmarkaður í alþjóðlegum samanburði. Fjármálaþjónusta er oft á tíðum dýrari hér en annars staðar, bæði vegna þess að smáar einingar þurfa að standa undir miklum föstum kostnaði en einnig vegna vaxandi regluverks og álags hins opinbera. Við getum náð fram meiri skilvirkni með því að sameina innviði í fjármálaþjónustu svo lengi sem það rúmast innan annarra takmarkana eins og samkeppnissjónarmiða,“ segir Haraldur.
Hann segist á þeirri skoðun að það sé vel í lagt að vera með fjóra viðskiptabanka í landi sem er ekki stærra en raun ber vitni.
„Það verður þó að vera virk samkeppni til að þjóna viðskiptavinum fjármálafyrirtækja,“ segir Haraldur.
Hann segir að Skagi sé opinn fyrir því að taka þátt í frekari þróun á fjármálamarkaði.
„Ég tel að Skagi sé í einstakri stöðu á markaðnum í dag og það er vandséð að það muni eiga sér stað miklar hreyfingar á fjármálamarkaði án þess að við fáum tækifæri til þess að koma að því með einum eða öðrum hætti,“ segir Haraldur.
Spurður hvort Skagi sé með frekari yfirtökur í skoðun segir Haraldur félagið stefna að frekari vexti í öllum rekstrarþáttum með markvissri sókn á sviði vátrygginga, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar. Félagið hafi unnið markvisst að innri vexti og náð góðum árangri á því sviði á síðasta ári. Mikil umskipti hafa átt sér stað í rekstri VÍS með aukinni arðsemi og sókn í markaðshlutdeild. Bankastarfsemin hjá Fossum vex hratt og eftir sameiningu Íslenskra verðbréfa við Fossa og SIV verður til stærsta eignastýringarfélag utan viðskiptabankanna fjögurra, með ríflega 200 milljarða í stýringu.
„Við erum líka opin fyrir ytri vexti. Við viljum taka þátt í þróun fjármálamarkaðarins og erum klárlega opin fyrir tækifærum í því samhengi, en þó ekki á hvaða forsendum sem er. Að mínu mati er samstæðan komin á þann stað núna að ytri vöxtur er okkur ekki nauðsynlegur til þess að við náum okkar markmiðum. Við erum í einstakri stöðu í því samkeppnislandslagi sem við störfum í. Við erum staðsett á syllu á milli stórra fjármálastofnana og smærri og sérhæfðari fjármálafyrirtækja á markaðnum. Það býður upp á ýmis tækifæri,“ segir Haraldur.
Spurður nánar út í hvaða tækifæri felist í því segir Haraldur að það sé fyrst og fremst sveigjanleikinn.
„Félög innan samstæðunnar eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á góða þjónustu og byggja upp langtímaviðskiptasambönd. Við veitum sérhæfða og lausnamiðaða þjónustu og höfum sveigjanleika til þess að bregðast hratt við þegar aðstæður kalla á það. Við getum þjónustað aðila sem eru of stórir fyrir smærri og sérhæfðari fjármálafyrirtækin en of litlir til að hreyfa nálina fyrir stóru viðskiptabankana. Að mínu mati er vandfundinn betri milliliður fjármagns á markaðnum í dag,“ segir Haraldur.
Hann lýsir því að Skagi sé ekki á ósvipuðum stað og Kvika var á árunum 2017-2019.
„Síðan sameinaðist Kvika Lykli og TM og útvíkkaði starfsemi sína talsvert, meðal annars á sviði fjártækni,“ segir Haraldur sem segir að hann sjálfur sé áhugamaður um fjártækni.
„Ef við lítum á strauma og stefnur á fjármálamarkaði þá er fjártækni vaxandi þáttur í að færa þjónustuna nær viðskiptavininum. Við hjá Skaga erum opin fyrir að taka þátt í þeirri þróun og það er í raun óhjákvæmilegt. Á sama tíma erum við einnig meðvituð um mikilvægi þess að halda skýrum fókus í okkar starfsemi,“ segir Haraldur.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum.