Alexander J. Hjálmarsson hjá AKKUR – Greiningu og ráðgjöf hefur tekið saman eignasafn hlutabréfasjóða miðað við stöðuna í desember 2024.
Í greiningu hans kemur fram að þegar eignasöfn sjóðanna í OMXI15-félögum (úrvalsvísitölunni) eru skoðuð, þá eru almennt sjóðirnir yfirvigtaðir í bréfum Alvotech en undirvigtaðir í Arion banka, Íslandsbanka og sameinuðu félagi JBT Marel.
Þegar hann skoðar OMX All Shares þá kemur í ljós að ekkert félag er augljóslega yfirvigtað en JBT Marel, Íslandsbanki og sjávarútvegsfélögin í heild sinni undirvigtuð.
Í samtali við Morgunblaðið segir Alexander: „Ef við tökum saman heildareignarhald sjóðanna var Alvotech langstærsta eignin þeirra um áramótin, tæplega 16% af heildareignum þeirra. Þar á eftir komu Arion banki og JBT Marel. Hafa þarf í huga að JBT Marel lækkaði í vigt vegna yfirtöku JBT á Marel þar sem þeir voru væntanlega að selja u.þ.b. 35% af hlut sínum.“
Aðspurður segir hann að ekki megi lesa neina stóra þróun út úr breytingum milli mánaða.
„Það er augljóst að sjóðstjórar hafa ekki mikla trú á því að það verði gefinn út loðnukvóti þar sem ekkert sjávarútvegsfélag er meðal 10 stærstu eigna hjá neinum hlutabréfasjóði. Óvissa um veiðigjöld, sem ný ríkisstjórn hefur hug á að hækka, spilar eflaust líka inn í. Sömuleiðis er áhugavert að sjá að Icelandair nær aðeins inn á lista yfir 10 stærstu eignir hjá tveimur sjóðum en félagið hefur oft verið vinsælt meðal sjóðanna og bendir kannski til þess að sjóðstjórar séu ekki sérstaklega bjartsýnir á flugrekstur næstu misserin.“ mj@mbl.is