Dagný nýr framkvæmdastjóri Brúar

Dagný Björk Erlingsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Brúar, félags stjórnenda.
Dagný Björk Erlingsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Brúar, félags stjórnenda. Ljósmynd/Aðsend

Stéttarfélagið Brú, félag stjórnenda, réð til sín á nýliðnu ári nýjan framkvæmdastjóra, Dagnýju Björk Erlingsdóttur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Dagný, sem er sú fyrsta sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra hjá Brú. Hún hefur starfað hjá fjölda stéttarfélaga og sinnt fjölbreyttum störfum innan þeirra síðustu ár, bæði sem kjaramálafulltrúi, verkefnastjóri fræðslumála og sinnt orlofs-, sjúkra- og menntasjóðum. Einnig hefur hún setið í stjórn Flugfreyjufélags Íslands og sat í samninganefnd fyrir hönd flugliða félagsins.

Dagný er með BS-gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands, D-vottun í verkefnastjórnun og er sem stendur í meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun á Háskólanum á Bifröst. Dagný hefur lengi haft brennandi áhuga á öllu sem tengist félagasamtökum, réttindum og velferð félagsfólks.

Haft er eftir Dagnýju að hún sé áhugasöm fyrir því að vera komin í þetta fjölbreytta starf hjá Brú, félagi stjórnenda.

„Markmið mitt er að vinna að áframhaldandi velferð félagsfólks okkar, veita góða þjónustu og auka sýnileika félagsins út á við. Þeir sem geta sótt um aðild hjá okkur eru stjórnendur, millistjórnendur og fólk í ábyrgðarstöðum á öllum aldri. Það verður ánægjulegt að fá að vinna áfram að uppbyggingu á þessu rótgróna og góða félagi,“ er haft eftir Dagnýju.

Félagið er eitt af 7 aðildarfélögum innan Sambands stjórnendafélaga (STF) og var stofnað árið 1919. Í boði eru góðir styrkir bæði í sjúkra- og menntasjóð sem og í orlofshús um land allt. Menntasjóðurinn veitir fjölbreyttan stuðning og niðurgreiðir til dæmis 80% af námsgjöldum vegna stjórnendanáms sem er kennt í fjarnámi hjá símenntun Háskólans á Akureyri.

Haft er eftir Kjartani Friðriki Salómonssyni, formanni Brúar, að mikill fengur sé að komu Dagnýjar í félagið þar sem reynsla hennar sé á breiðum og faglegum grunni.

„Hún þekkir hvern krók og kima starfsemi stéttarfélaga og mun vera haukur í horni allra okkar félaga, “ er haft eftir Kjartani.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka