Leiðin til bættra lífskjara

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Ljósmynd/Aðsend

Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins skrifar:

Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur sett sér metnaðarfull markmið um að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Með áherslu á að ná stjórn á fjármálum ríkisins með hagræðingu og endurbótum á opinberri stjórnsýslu er markmiðið að skapa skilyrði fyrir lækkandi verðbólgu og vaxtastig og aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu.

Verðbólga hefur á undanförnu ári lækkað verulega, úr rúmlega 10% í upphafi árs 2023 niður í 4,8%. Þessi hjöðnun, ásamt lækkandi verðbólguvæntingum, hefur leitt til þess að Seðlabanki Íslands hefur frá því í október á síðasta ári lækkað stýrivexti úr 9,25% í 8,5%. Með lækkun verðbólgu og vaxta léttir á fjármagnskostnaði heimila og fyrirtækja og svigrúm myndast fyrir nýfjárfestingu og hagvöxt.

Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að því að þessi þróun haldi áfram. Til að skapa skilyrði fyrir efnahagslegu jafnvægi þarf að leggja áherslu á samkeppnishæfni og aukna framleiðni. Efla þarf framleiðslugetu hagkerfisins og mynda þannig grundvöll þess að saman geti farið aukin verðmætasköpun og stöðugleiki.

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga lögðu Samtök iðnaðarins fram 30 umbótatillögur að aukinni samkeppnishæfni undir yfirskriftinni Hugmyndalandið. Þar var bent á að samtakamátturinn og viljinn til uppbyggingar hefði fært okkur stóra sigra. Með elju og staðfestu höfum við fjárfest í innviðum, samgöngum, fjarskiptum, húsnæði, nýsköpun og menntun og með því skapað frjóan jarðveg fyrir fjölbreytt atvinnulíf og velsæld. Við höfum sýnt að með hugmyndum, góðum ákvörðunum, framkvæmdum og samtakamætti getur Ísland náð miklum framförum á skömmum tíma.

Ísland stendur frammi fyrir áskorunum sem krefjast nýrrar sóknar. Áskoranirnar lúta að stórum hluta að því að framleiðslugeta hagkerfisins hefur ekki vaxið í takt við þarfir efnahagslífsins á síðustu árum. Það er jákvætt að ný ríkisstjórn ætli að bregðast við þessum áskorunum með því m.a. að styðja við nýsköpun, fjölga íbúðum hratt, tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði, fjárfestingu í samgöngum, auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi raforku og sækja fram í menntamálum. Með uppbyggingu má skapa skilyrði stöðugleika og hagvaxtar.

Áætlað er að rekstrarhalli ríkissjóðs nemi 1,2% af landsframleiðslu í ár. Án aðgerða stjórnvalda eru líkur á áframhaldandi halla næstu ár, sem gæti ógnað samkeppnishæfni og stöðugleika. Rekstrarhalli ríkissjóðs er veruleg áskorun. Hann dregur úr getu ríkisins til að bregðast við efnahagslegum sveiflum og eykur skuldsetningu til framtíðar.

Til að vinna gegn hallarekstri hyggst ríkisstjórnin hagræða í ríkisrekstri, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Ríkisstjórnin hefur leitað eftir samstarfi við þjóðina um þetta efni og fjölmargar áhugaverðar tillögur borist. Aðgerðir stjórnvalda á þessu sviði eru nauðsynlegar til að nýta opinbera fjármuni betur, draga úr óþarfa kostnaði og tryggja skilvirkari þjónustu.

Til að markmiði um hallalausan ríkisrekstur verði náð er mikilvægt að saman fari markvissar aðgerðir sem auka hagkvæmni í rekstri ríkisins og efling verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Með þeim hætti er hægt að skapa sjálfbærni í ríkisrekstri, lækka skuldir ríkissjóðs til lengri tíma litið, búa í haginn þannig að hægt sé að mæta framtíðaráföllum.

Iðnaður er ein stærsta og mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar. Hann stendur undir um fimmtungi verðmætasköpunar hagkerfisins og í greininni starfa um 51 þúsund eða 22% af heildarfjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag hans til samfélagsins í formi skattgreiðslna, er mjög stórt og undirstrikar mikilvægi hans fyrir rekstur ríkis og sveitarfélaga. Með umbótum í málefnum sem auka samkeppnishæfni landsins styðja stjórnvöld best við áframhaldandi framlag iðnaðarins til bættra lífskjara landsmanna.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK