Orkuklasinn stofnar framtakssjóð

Rósbjörg Jónsdóttir segir að hjá Orkuklasanum sé alltaf verið að …
Rósbjörg Jónsdóttir segir að hjá Orkuklasanum sé alltaf verið að leita leiða til að efla greinina og fólkið í henni, samfélaginu öllu til heilla. Morgunblaðið/Karitas

Orkuklasinn, sem er þverfaglegur samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana í íslenska orkugeiranum, vinnur að formun og stofnun fjárfestingasjóðs í samvinnu við Íslandssjóði. Sjóðurinn verður sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og verður kynntur lífeyrissjóðum landsins síðar á árinu.

Frá þessu greindi Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri klasavettvangsins í erindi á nýársfundi Orkuklasans í Arionbanka á fimmtudaginn. Fundurinn bar yfirskriftina Heilbrigt samfélag og heilbrigður orkugeiri.

Sagði hún að sjóðurinn myndi njóta stuðnings og þekkingar frá aðildarfélögum Orkuklasans. „Þarna mun fara saman miðlun þekkingar og aukið fjármagn frá fagfjárfestum sem nýtist til framfara og aukinnar fjölbreytni í orkugeiranum,“ sagði Rósbjörg.

Stefán Einar Stefánsson stjórnandi Spursmála á mbl.is stýrði pallborðsumræðum þeirra …
Stefán Einar Stefánsson stjórnandi Spursmála á mbl.is stýrði pallborðsumræðum þeirra Árna Magnússonar frá Orkuklasanum og ÍSOR, Bjarkar Þórarinsdóttur frá HS Orku, Sævars Freys Þráinssonar frá Orkuveitu Reykjavíkur og Ríkarðs Ríkarðssonar frá Landsvirkjun. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Í máli hennar kom fram að undirbúningur að stofnun sjóðsins hefði hafist árið 2023.

„Með þessu verkefni sýnir Orkuklasinn í verki hvernig hann nýtir ágóða verkefna sinna til góðra mála sem renna beint til samfélagsins.“

Rósbjörg sagði í samtali við Morgunblaðið að enn væri of snemmt að ræða sjóðinn í meiri smáatriðum.

Auka samkeppnishæfni

Meginmarkmið Orkuklasans er að auka samkeppnishæfni félaga sinna og samfélagsins sem heildar á sama tíma og geta og þekking aðildarfélaga er efld samfélaginu til heilla, að sögn Rósbjargar.

„Við erum alltaf að leita leiða til að efla greinina og fólkið í henni, að það verði öflugir sérfræðingar sem skapi sífellt meiri verðmæti.“

Eins og Rósbjörg útskýrir þá var Orkuklasinn upphaflega stofnaður árið 2013 og hét þá Jarðvarmaklasinn. Nafninu var breytt árið 2018.

Fyrir tilstilli klasans hefur Ísland orðið að sýningarglugga á alþjóðavísu fyrir endurnýjanlega orku að sögn Rósbjargar en eitt af stærstu verkefnum klasavettvangsins er alþjóðleg ráðstefna, Iceland Geothermal Conference, IGC, sem hér hefur verið haldin fimm sinnum, nú síðast vorið 2024. Næst verður hún haldin 2027.

Nýjar lausnir

Ráðstefnan er haldin þriðja hvert ár að sögn Rósbjargar og 6-700 manns frá meira en 50 þjóðlöndum koma þar saman. „IGC-ráðstefnan styður við starfsemi aðildarfélaga klasans.“

Skemmtikrafturinn Bergur Ebbi Benediktsson flutti hugvekju.
Skemmtikrafturinn Bergur Ebbi Benediktsson flutti hugvekju. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Rósbjörg segir að ráðstefnan snúi að því að draga fram nýjar lausnir og ný tækifæri sem nýtast í jarðvarmanum á heimsvísu. „Ísland er mekka jarðvarmans, hann er okkar olía. Okkur hefur með miklu hugrekki, verðmætum mannauði og þekkingu auðnast að fanga þessi miklu verðmæti og enn eru mikil tækifæri fyrir hendi.“

Þá segir Rósbjörg mikilvægt að átta sig á að ákveðið samasemmerki sé á milli beislunar orkunnar hér á landi og heilbrigðis samfélagsins. „Fólk þarf að bera virðingu fyrir auðlindunum eins og öðrum okkar eignum og sóa ekki vatni og hita að óþörfu. Án orkunnar byggjum við ekki við þau lífsgæði sem raun ber vitni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka