Ljóst er að samruni Marels og JBT hefur haft ýmiss konar áhrif á íslenskan verðbréfamarkað.
Sigurður Hreiðar Jónsson er forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbanka og segir hann að mest muni um þær breytingar sem gerðar voru á skráningu JBT Marel í tengslum við samrunann:
„Marel var áður með tvíhliða skráningu á íslenska verðbréfamarkaðinum og í Hollandi en íslenski markaðurinn ráðandi í veltu félagsins. Nú er hið sameinaða félag með skráningu í Bandaríkjunum og á Íslandi og hefur þetta t.d. haft áhrif á umfang viðskipta innanlands með þetta félag sem áður var eitt það veltuhæsta á íslenska verðbréfamarkaðinum,“ útskýrir Sigurður.
„Ef við skoðum þróun í veltu hlutabréfa félagsins á Íslandi, þá var velta Marels árið 2023 og 2024 um einn milljarður króna á dag að meðaltali. Nú er heildarvelta Marels það sem af er ári um einn milljarður króna og sést greinilega að velta félagsins hefur öll færst til Bandaríkjanna,“ segir hann og áréttar að í þessum tölum sé búið að taka út viðskipti sem voru vegna samruna Marels og JBT sem leiddu til 460 milljarða króna veltu.
Tvískráning félaga hefur m.a. þann tilgang að laða að erlenda fjárfesta og einfalda þeim að stunda viðskipti með hluti í íslenskum félögum. Sigurður segir erlenda fjárfesta ekki hafa viljað fjárfesta beint á Íslandi þar sem íslenska krónan hafi gegnum tíðina sveiflast mikið, en markaðurinn hefur þó verið að dýpka og sveiflur farið minnkandi.
Sigurður bendir á að það hafi verið mikilvægt í yfirtökuviðræðum JBT og Marels að hið sameinaða félag myndi vera með tvíhliða skráningu í Bandaríkjunum og Íslandi, og að fyrsta tilboð JBT hafi ekki verið með tvíhliða skráningu.