Origo lausnir, sá hluti upplýsingatæknifyrirtækisins Skyggnis (áður Origo) sem hefur sérhæft sig í sölu og þjónustu á notendabúnaði og tæknilausnum, hefur fengið nafnið Ofar. Leitin að nafninu tók sex mánuði. „Á einhverjum tímapunkti var okkur hætt að lítast á blikuna. Ég og fleiri vildum finna íslenskt nafn sem væri stutt, auðvelt að fallbeygja og ekki með séríslenskum bókstöfum. Við skoðuðum um 230 nöfn. Ofar vakti athygli okkar fyrst sem úrklippa úr tímaritinu Lifandi vísindi,“ útskýrir Jón Mikael Jónasson framkvæmdastjóri Ofar í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að um ákveðinn lokahnykk sé að ræða í umbreytingarferli gamla Origo.
Þann 1. nóvember sl. tók Skyggnir til starfa sem eignarhaldsfélag yfir fjölda dótturfélaga. Stofnað var við sama tækifæri félagið Origo ehf. sem sér um rekstrarþjónustu, innviði og hugbúnaðaðargerð og rekið verður undir hatti Skyggnis rétt eins og Ofar. Önnur félög undir hatti Skyggnis eru Helix, Syndis, Aftra, Tölvutek, Unimaze, Adveise, dala care, Datalab, Defend Iceland, Codo, Paxflow og Responsible Computer.
„Það var nauðsynlegt að aðskilja betur Origo lausnir og Origo ehf. með nýju nafni og öllu tilheyrandi,“ segir Jón en félagið hefur verið áberandi á skiltum um alla borg síðan nafnabreytingin var tilkynnt. Þar er sérstök áhersla lögð á vörumerki sem fyrirtækið er með umboð fyrir, merki eins og Canon, Lenovo, Sony og Bose.
100 starfa hjá Ofar sem er með skrifstofustarfsemi í Borgartúni, á Akureyri og Egilsstöðum en einnig með stóran lager, verkstæði og aðra þjónustustarfsemi á Köllunarklettsvegi í Reykjavík. „Við erum með þessar áþreifanlegu vörur eins og fartölvur, skjái, myndlausnir og prentara.“
Jón bætir við að Ofar sé í raun heildsala þó einnig sé rekin hefðbundin verslun í Borgartúni. „Við sinnum fyrst og fremst fyrirtækjum og stofnunum sem og endursöluaðilum. Þaðan kemur langstærsti hluti af okkar tekjum. 60% starfsfólksins eru í þjónustu. “
Jón hóf störf hjá félaginu fyrir tveimur árum. Þar á undan var hann í tuttugu ár hjá Ölgerðinni og Danól. Hann segist vel stemmdur fyrir verkefninu. „Þetta er það sama og ég hef verið að gera allt mitt líf, nema núna er ég að selja tölvur, prentara o.s.frv.“
Um þróun í heimi tölva og tækni segir Jón að búnaðurinn sé sífellt að verða endingarbetri. „Heilt yfir hefur verðlagning á tæknivörum lítið breyst í gegnum árin og er langt frá því að halda í við almenna verðlagsþróun. Þegar ég fermdist keypti ég mér tölvu fyrir fermingarpeningana á 130 þúsund. Sambærilegur búnaður kostar nú tuttugu árum síðar svipaða upphæð.“
Jón segir að Ofar fái nú aukið sjálfstæði til athafna. „Við getum skapað okkar eigin framtíð og vaxtartækifæri. Þetta eru spennandi tímar. Það er gott að fara nú úr umbreytingarfasanum og líta fram á veginn.“
Spurður um nýjungar nefnir Jón snjallbox. „Þau hjálpa verslunum að vera með hagkvæmari rekstur. Þær geta stytt t.d. afgreiðslutíma sinn og sett vörur sem fólk kaupir á netinu í boxin.“
Spurður um hlutdeild á markaði segir Jón að viðhorfskannanir gefi ágæta mynd. „Þegar fólk er spurt t.d. um myndavélar nefna 70% aðspurðra Canon. Við tölum oft um að ef við værum að byggja fyrirtækið upp frá grunni og þyrftum að velja okkur vörumerki til að selja þá myndum við einmitt velja þau merki sem við erum með í dag,“ segir Jón að lokum.