Íslandsbanki og VÍS skrifuðu í dag undir samstarfssamning. Rauði þráðurinn í samstarfinu er að viðskiptavinir, sem eru í viðskiptum við bæði félög, njóta sérstaks ávinnings í vildarkerfum beggja félaga. Með samstarfinu fá viðskiptavinir jafnframt betri yfirsýn yfir fjármálavörur og tryggingar.
Samhliða kemur VÍS til með að bjóða upp á þjónustu í nokkrum af útibúum Íslandsbanka og vera með sýnileika í öllum dreifileiðum bankans, vef, appi og netbanka. VÍS er í dag með þjónustuskrifstofur á sjö stöðum en Íslandsbanki er með tólf útibú.
Með samstarfinu er þjónusta við viðskiptavini beggja félaga aukin og horft til fjölgunar viðskiptavina og að auka ánægju núverandi viðskiptavina. Samstarfið og útfærslur þess verður kynnt nánar á vormánuðum.
Haft er eftir Jón Guðna Ómarssyni, bankastjóra Íslandsbanka að vegferðin sé hluti af sókn bankans.
„Við erum mjög spennt að bjóða tryggingar sem hluta af vöruframboði Íslandsbanka og auka þjónustuna við okkar viðskiptavini. Við sjáum fjölmörg tækifæri í því að vinna með VÍS og nýta meðal annars fríðindakerfið okkar, Fríðu, sem er eitt öflugasta sinnar tegundar á landinu. Vegferðin með VÍS er einnig hluti af sókn bankans á nýju ári og hluti af nýrri stefnu hans. Þar er horft til frekari krosssölu og enn betri þjónustu. Við hlökkum því mjög til að sækja fram í samstarfi við VÍS.“
Haft er eftir Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, forstjóra VÍS að þau séu ákaflega stolt af því að kynna samstarfið.
„Með því stígum við stórt skref í að bæta upplifun viðskiptavina okkar en með því að sameina krafta okkar gerum við viðskiptavinum kleift að fá bæði fjármála- og tryggingaþjónustu á einum stað. Við hlökkum til að kynna útfærslur samstarfsins betur á næstu mánuðum og erum fullviss um að viðskiptavinir muni upplifa aukinn ávinning enda leggja bæði félög áherslu á framúrskarandi þjónustu,“ er haft eftir Guðnýju.