Landssamtök lífeyrissjóðanna efna til málstofu um hlutverk og samskipti fjárfesta og stjórnar/stjórnenda skráðra félaga á Hótel Reykjavík Grand kl. 9 þriðjudaginn 28. janúar
Fram kemur í tilkynningu Landsamtakanna að á málstofunni verði flutt erindi og haldnar umræður þar sem áhersla verði lögð á reglur og viðmið sem gilda um samskipti á hluthafafundum og á milli hluthafafunda.
Málstofunni sé ætlað að vera vettvangur skoðanaskipta fjárfesta og stjórnenda félaga um hvernig æskilegt sé að haga stefnumörkum og samskiptum þeirra á milli. Frummælendur munu miðla reynslu sinni sem koma úr ýmsum greinum í atvinnulífinu, háskólasamfélaginu og lífeyrissjóðakerfinu.
„Lífeyrissjóðir eru umfangsmiklir á fjármálamarkaði og bera ábyrgð á að varðveita og ávaxta fjármuni sjóðfélaga sinna. Landssamtök lífeyrissjóða eru heildarsamtök sjóðanna og hafa það hlutverk að gæta hagsmuna sjóðfélaga í hvívetna, vera málsvari lífeyrissjóðakerfisins út á við og hafa frumkvæði í þjóðmálaumræðunni um lífeyrissjóðamál í víðum skilningi,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, í tilkynningunni.