„Þeir vildu kalla þetta Hafberg sterka, en ég hafnaði því,“ segir Hafberg Þórisson, framkvæmdastjóri og eigandi garðyrkjustöðvarinnar Lambhaga, í samtali við ViðskiptaMoggann, og bendir á nýtt salat í nýjum pakkningum sem heitir í staðinn Djöflasalat. „Það er sterkt bragð af því,“ bætir hann við.
Hafberg selur salat í öllum helstu nýlenduvöruverslunum. „Það eru fleiri í þessu. Ég vil að samkeppnin sé virk,“ segir framkvæmdastjórinn en viðurkennir að fyrirtæki hans sé það umsvifamesta á markaðinum. „Við framleiðum tæp tvö tonn á dag.“
Lambhagi starfar nú á tveimur stöðum, í Úlfarsárdal í Reykjavík og Lundi í Mosfellsdal. „Ég sé fyrir mér að vera búinn að flytja alla framleiðsluna í Lund innan fimm ára. Þar get ég byggt á tíu hekturum lands,“ segir Hafberg sem keypti landið árið 2007.
Nú þegar hefur risið nýtt alsjálfvirkt gróðurhús í Lundi sem framleiðir margar tegundir af salati í fimm „vélum“. Þar vex salatið og fer síðan sína leið í skurð og pakkningu eftir að hafa vaxið í 28-32 daga, mismunandi eftir tegundum. Gróðurhúsið er fyrsti áfanginn af þremur. „Ég fer að hefjast handa síðar á árinu við næsta áfanga. Svo ætla ég að hefja útiræktun á salati eins og ég gerði hér áður fyrr. Þá leiddi ég hita undir moldina og fékk tvær uppskerur á ári. Sumt salat verður að rækta úti eins og kínakál, sem ég gerði mikið af á sínum tíma, og iceberg. Báðar þessar tegundir þurfa næturkuldann til að geta myndað höfuð.“
Hann segir að miklar endurbætur hafi staðið yfir í Úlfarsárdal upp á síðkastið. Verið er að skipta um þak meðal annars. „Við vildum ekki rífa húsin. Þau eru byggð samkvæmt þeirra tíma venju þegar ekki mátti byggja há gróðurhús vegna ótta við fok,“ útskýrir Hafberg en í viðbyggingu í Úlfarsárdal frá 2014 er mun hærra til lofts en í því gamla, líkt og í nýja húsinu í Lundi. „Svo er kælirinn orðinn of lítill.“
Blaðamaður gengur um gróðurhúsin með Hafberg og skoðar bæði salat, sem Hafberg segir að sé ræktað án eiturefna og með hátt vítamíninnihald, og laust við svokallaða oxalsýru, og margvíslegar sjálfvirkar vélar sem Hafberg hefur sjálfur hannað og látið smíða. Þar á meðal er pökkunarvél, vigtarvél, sem setur salatið í rétta skammta, og sáningarvél. „Ég fór til Danmerkur og leitaði að samstarsfaðila og fann Ellepot. Þau sögðu að það væri ekki hægt að búa til svona sáningarvél. Þá sagðist ég ætla að leita annað. Þau sáu að sér og smíðuðu vélina með mér,“ segir Hafberg og brosir.
„Það hefur mikil þróun orðið í tækni og sjálfvirkni frá því ég hóf starfsemi árið 1978. Á þeim tíma var ég nýkominn heim úr garðyrkjunámi í Noregi. Ég sótti um land hjá borginni undir ræktun en fékk neitun. Ég fékk svo tilboð um starf í Afríku og var búinn að pakka í töskur þegar Albert Guðmundsson borgarfulltrúi hafði samband. Hann sagði að Ísland mætti ekki við því að missa ungt fólk úr landi og ég fékk landið á leigu. Í dag er ég með samning til nokkurra ára í viðbót, þó maður viti aldrei hvað ólíkindatólin í borginni gera. Kannski vilja þau nota landið. Þá þarf ég að fara í burtu. Ég hef samt hug á að vera hér áfram þó að framleiðsla hætti, til dæmis með pökkun og aðra aðstöðu. En landið er orðið of lítið. Ég hefði viljað fá meira land á sínum tíma, en ég sá auðvitað ekki fyrir hvað þetta myndi stækka mikið. Borgin hefur verið mér hliðholl. Ég þarf ekkert að kvarta undan því.“
Hann bendir blaðamanni á pappakassa sem notaðir eru til að flytja salatið á útsölustaði. „Við notum 350 þúsund svona kassa á ári og eigum vél sem brýtur þá saman.“
Hafberg býr í einbýlishúsi sem hann reisti á landinu. Þar skammt frá er tjörn sem Hafberg bjó sjálfur til. Þar svamla endur, gæsir og norskur hegri gerir sig heimakominn. Nú er Hafberg að reisa annað einbýlishús og móttöku í Lundi, við hlið nýja gróðurhússins. „Þar verður gott að vera. Ég hef verið að planta trjám síðan ég fékk landið fyrir sautján árum og mun halda því áfram.“