Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Undanfarnar vikur hefur fréttaskýrendum orðið tíðrætt um að á einu augabragði hafi stemningin í stjórnmálum gjörbreyst. Þeir kalla þetta fyrirbæri „vibe shift“ á ensku; ákveðin hugmyndafræði hefur verið ráðandi um nokkuð langt skeið og náði hámarki á fyrsta helmingi þessa áratugar, en núna hefur þessari hugmyndafræði verið sópað út og nýjar áherslur tekið við.
Þessar nýju áherslur komu skýrt fram í innsetningarræðu Donalds Trumps en þar útlistaði hann vandlega hvað það er sem koma skal: tími fórnarlambavæðingar er liðinn og fólk verður ekki lengur dregið í dilka eftir því hvort það tilheyrir hinum eða þessum minnihlutahópnum. Enginn nennir heldur lengur að eltast við fabúleringar um hvar draga skuli línuna á milli karla og kvenna. Umræðan verður ekki lengur ritskoðuð í nafni pólitískrar réttsýni og dyggðaskreytinga og það er kominn tími á skynsamlegri og raunsærri nálgun við loftslags- og umhverfismálin. Það verður ekkert bruðl með skattpeninga og það dugar ekki lengur að væla: nú þarf einfaldlega að bretta upp ermar og koma hlutunum í verk.
Á þessu nýja skeiði sem nú er að hefjast mun forystuhlutverk Bandaríkjanna heldur ekki fara á milli mála, og heimsins skúrkum og skítseiðum verða ekki gefin nein grið. Tími er kominn á röð, reglu og friðsemd í alþjóðasamfélaginu.
Er nema von að bandarískir hægrimenn séu klökkir af gleði og þykir mörgum þeirra þessi nýja stemning minna á það blómaskeið sem var þegar Ronald Reagan var við völd. Er fortíðarþráin svo sterk að fræg og einstaklega væmin auglýsing úr kosningabaráttunni 1984 er farin aftur á kreik á samfélagsmiðlum: „Morgunninn er runninn upp í Ameríku!“
Menningarstríðinu er lokið og repúblikanar sigruðu. Með yfirburðum.
Ég held að það hljóti að eiga við um flesta lesendur ViðskiptaMoggans að þykja Donald Trump enginn draumaforseti. Trump er fjarri því gallalaus og ekki hægt að segja að það sjáist á tali hans og fasi að hann hugsi hlutina mjög djúpt. Hæfileikar hans liggja á vissum sviðum en ekki öðrum, og það þurfti einmitt ákveðna gerð af fauta, hrokagikk og lukkuriddara til að komast í gegnum varnir bandaríska vinstrisins.
Gott ef Trump hefur ekki skánað örlítið með aldrinum og reynslunni – eða erum við kannski búin að venjast Trump? Hann virkar alltént örlítið landsföðurlegri en áður og meyrari en hann var fyrir átta árum. Menn læra auðvitað heilmikið af því að vera í sviðsljósinu, leiða heila þjóð í fjögur ár en tapa svo kosningum, sitja undir endalausum árásum og málarekstri, og vera aðeins hársbreidd frá því að falla fyrir skoti tilræðismanns. Það er sagt að fólk þurfi að þola áföll og mótlæti til að þroskast og þar hefur Trump heldur betur fengið sinn skerf.
Þó svo að Trump og Repúblikanaflokkurinn séu núna í afskaplega góðri stöðu þurfa hægrimenn að fara varlega og margt getur farið úrskeiðis. Fyrst af öllu þarf að nefna að Trump tekur ekki við sérstaklega góðu búi, en það skrifast að hluta til á þau fjárútlát sem ráðist var í vegna kórónuveirufaraldursins þegar Trump var síðast við völd. Færa má rök fyrir því að Biden hafi ekki stigið nógu fast á útgjaldabremsuna eftir að faraldrinum lauk og samfélagið tók að komast í eðlilegt horf, en allt of mikill halli hefur verið á ríkissjóði. Trump hefur því ekki mikið svigrúm til að athafna sig.
Greinendur vara sérstaklega við því að sú tollastefna sem Trump vill innleiða geti leitt til þess að bandaríkjadalurinn styrkist sem síðan gæti haft keðjuverkandi áhrif á markaðinn með bandarísk ríkisskuldabréf sem gæti að lokum leitt til þess að það verður dýrara fyrir ríkissjóð að gefa út skuldabréf – einmitt þegar svigrúmið í ríkisfjármálunum er með allra minnsta móti.
Halda þarf rétt á spilunum og vonandi er Trump með snjalla ráðgjafa sem hjálpa honum að taka réttar ákvarðanir. Reyndar er það einn helsti munurinn á öðru kjörtímabili Trumps og því fyrsta að hann er núna með miklu betri hóp í kringum sig: Í janúar 2017 var Trump ekki með nægilega stórt og gott pólitískt tengslanet og hann átti í vanda með að fá rétta fólkið til liðs við sig. Sumir sem hann skipaði í ábyrgðarstöður litu hreinlega á það sem sitt meginhlutverk að halda aftur af forsetanum. Venjulega þegar forsetar komast til valda í Bandaríkjunum er það fyrsta sem þeir gera að taka til í stjórnsýslunni og koma sínu fólki að en Trump var ekki með allt repúblikanabatteríið á bak við sig og gat ekki ráðist í þá allsherjarræstingu sem þurfti, og fyrir vikið vann öll stjórnsýslan gegn honum við hvert fótmál.
Núna veit Trump upp á hár hvað hann er að gera. Honum hefur tekist að umbreyta Repúblikanaflokknum og er þar óumdeildur leiðtogi, og nánustu samstarfsmenn hans eru ekki að beita neinum brögðum. Trump-teymið lofar góðu og er skipað afskaplega sterkum einstaklingum sem iða í skinninu að gera róttækar og löngu tímabærar breytingar á bandaríska stjórnkerfinu. Auðvitað eru nokkrir léttkryddaðir rugludallar inn á milli, en það er löng hefð fyrir slíku í bandarískri pólitík.
Hvað alþjóðasamfélagið snertir held ég að stjórnmálamenn í öðrum löndum ættu núna að vera búnir að átta sig á Trump. Hann kom öllum í opna skjöldu fyrir átta árum, enda ekkert líkur öðrum pólitíkusum, og gekk nokkuð vel að fá sínu framgengt með alls konar hótunum og litríkum yfirlýsingum. Besta leiðin til að skilja Trump virðist vera að taka hann ekki bókstaflega, en taka hann samt alvarlega. Þá ætti öllum að vera orðið ljóst að Trump er ekki ósveigjanlegur þó að hann kunni öll þau bolabrögð sem má nota til að skapa honum betri stöðu við samningaborðið. Hann vill semja, hann vill vera sanngjarn, og hann er afskaplega móttækilegur fyrir skjalli.
Er helst að ég hafi áhyggjur af að viðsemjendur Trumps í Evrópu, Kína og víðar hugsi sem svo að ekki þurfi að taka of mikið mark á yfirlýsingum Trumps og að hann muni ekki standa við stóru orðin. Grunar mig að Trump væri þá ekki lengi að fara upp á næsta stig í hótununum og ómögulegt að vita hvert það gæti leitt.
Reyndar blása líka ferskir vindar um stjórnmálin í öðrum löndum og hafa hægriflokkar verið að sækja í sig veðrið. Í Argentínu hefur t.d. Javier Milei unnið kraftaverk og allar horfur eru á að Pierre Poilievre verði næsti forsætisráðherra Kanada. Staða hægrimanna hefur verið að styrkjast mikið í Evrópu og víða um álfuna má finna leiðtoga sem myndu taka Trump opnum örmum ef hann kíkti við í kaffi, en ekki fitja upp á nefið eins og var í tísku síðast þegar Trump var við völd.
Það er margt sem gefur tilefni til bjartsýni. Ríkisstjórn Trumps virðist ætla að höggva á ótalmarga hnúta og leysa bandarískt atvinnulíf úr viðjum. Fyrirtæki sem áður voru afskaplega upptekin við ímyndarvinnu og dyggðaskreytingar geta núna farið að einbeita sér að verðmætasköpun, og svei mér þá ef Bandaríkjamenn hljóta ekki að upplifa ákveðinn létti að þurfa ekki lengur að lifa undir oki réttsýnispólitíkur.
Ég leyfi mér að vona að nýtt gullaldartímabil sé að renna upp, rétt eins og Trump fullyrti tvisvar í innsetningarræðunni. Ef kjörtímabilið gengur vel er næsta víst að J.D. Vance taki við keflinu, en hann er efnilegasti varaforseti Bandaríkjanna í háa herrans tíð, og bæði ungur, orkumikill, mælskur og eldklár. Við gætum því átt von á a.m.k. tólf árum af tiltölulega skynsamlegri stefnu.
Og að hugsa sér, að heimsbyggðin sat næstum því uppi með Kamölu Harris!
Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.