Páll Jóhannesson lögmaður hjá BBA/Fjeldco skrifar:
Töluverð þróun hefur verið í skattamálum í heiminum síðastliðin ár sem við reynum að fylgja hér á landi. Í sumum tilvikum eiga breytingar helst við um mjög stór alþjóðleg fyrirtæki og áhrifin eru minni hér á landi en svo er ekki í öllum tilvikum hins vegar. Samkomulag um alþjóðlegt regluverk á þessu sviði hefur helst verið á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Stefna Evrópusambandsins á sviði skattamála hefur einnig töluverð áhrif hér á landi þrátt fyrir að Ísland sé ekki beinn þátttakandi í því samstarfi, enda tekur EES-samningurinn ekki til skatta og ber því ekki að taka upp tilskipanir sem sambandið samþykkir sem snúa að sköttum.
Hingað til hefur samræming skatta innan ESB helst verið tengd virðisaukaskatti en aðildarríkin hafa til fjölda ára verið bundin sameiginlegum ramma sem skilgreindur er í svonefndri „VSK-tilskipun“. Við höfum nýverið ráðist í að aðlaga lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, VSK tilskipuninni. Þessar breytingar komu hins vegar til í ljósi þess að ótækt þótti að okkar VSK-kerfi væri orðið svo frábrugðið sameiginlegum reglum ESB sem var farið að hafa mjög neikvæð áhrif.
Norsk stjórnvöld, sem eru í grófum atriðum í sömu stöðu og Ísland en þó nokkrum númerum stærri, fylgjast mjög vel með regluverki innan ESB og uppfæra sitt eigið eftir töluvert skýrari stefnu en við höfum gert hér á landi. Við höfum frekar skoðað breytingar þegar skýr vandamál hafa komið upp í framkvæmd og jafnvel valdið vandræðum í nokkurn tíma. Fyrri leiðin hefur töluverða kosti ef einhver tök eru á.
Nú er tvennt sem vert er að líta til innan ESB, þ.e. annars vegar áhersla sambandsins á samkeppnishæfni og hins vegar skýr merki um þá stefnu að samræma betur tekjuskattskerfi aðildarríkjanna. Með þetta fyrir augum hafa ýmsar reglur þegar tekið breytingum og hins vegar verið lagðar fram tillögur að breytingum sem auðvelda eiga viðskipti. Má þar m.a. nefna án þess að um tæmandi talningu sé að ræða:
Nú um áramótin tóku gildi reglur um undanþágu smærri fyrirtækja (velta allt að 85 þúsund EUR í heimalandi og 100 þúsund EUR innan sambandsins) frá virðisaukaskatti (nefndar „domestic SME scheme“ og „cross-border SME scheme“). Reglurnar gefa smærri fyrirtækjum þann kost að þurfa ekki að skila virðisaukaskatti en þau hljóta þá ekki innskattsfrádrátt. Um getur verið að ræða mikla einföldun í smærri rekstri.
Tillögur um reglur um samræmda ákvörðun tekjuskattsstofns fyrirtækja sem starfa innan ESB (nefndar „BEFIT“ eða „Business in Europe: Framework for Income Taxation“). Markmið reglnanna er einföldun og aukið jafnræði fyrirtækja.
Reglur um kerfi höfuðstöðva (nefndar „Head Office Tax (HOT) system for small and medium-sized enterprises“). M.a. er gert er ráð fyrir að fyrirtæki sem starfa í gegnum útibú eða fastar starfsstöðvar í öðrum ríkjum þyrftu eingöngu að eiga samskipti við skattyfirvöld þar sem höfuðstöðvar eru staðsettar.
Reglur um einföldun á lækkun og endurgreiðslu afdráttarskatts sem nefndar eru „FASTER“. Reglurnar gera m.a. ráð fyrir samræmdu rafrænu vottorði sem einfaldar kerfi sem í dag er flókið og kröfur mismunandi eftir aðildarríkjum.
Samræmdar reglur um milliverðlagningu
Fyrirsjáanlegt er að íslensk stjórnvöld þurfi að taka skýrari afstöðu til þess hvort og hvernig við fylgjum þróun innan Evrópu með hliðsjón af samkeppnishæfni hér á landi. Tekið skal fram að ekki eru allar aðgerðir sambandsins til þess að bæta samkeppnishæfni og því örugglega rétt að velja og hafna. Betra er að orða stefnu íslenskra stjórnvalda upphátt til að tryggja gagnsæi og fyrirsjáanleika. Þá er ákjósanlegra að reyna að bregðast við áður en neikvæð áhrif koma fram.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.