Finnbogi Rafn Jónsson framkvæmdastjóri viðskipta hjá Nasdaq Iceland segir í viðskiptahluta Dagmála að áhugi almennings á hlutabréfamarkaðnum sé að nálgast það sem gengur og gerist erlendis.
„Almenningur tók varla virkan þátt á markaði fyrir árið 2020. Það er alveg skýrt að það þurfi traust og trúverðugleika til að byggja upp traustan markað þannig almenningur sjái hag sinn í að taka þátt,“ segir Finnbogi.
Spurður hvort hann telji stutt í að þátttakan hér á landi verði á pari við það sem gengur og gerist erlendis segir Finnbogi að hann voni það.
„Við höfum verið að horfa til Svíþjóðar í þessum efnum en þar tekur almenningur virkan þátt á markaðnum. Við erum bjartsýn á að þátttaka almennings haldi áfram að aukast hér á landi. Það skiptir máli að fá þennan hóp fjárfesta á markaðinn til að tryggja seljanleika og gæði á markaðnum,“ segir Finnbogi.