100% hækkun á fjórum árum

Tækin í nýja húsið kostuðu 700 milljónir króna að sögn …
Tækin í nýja húsið kostuðu 700 milljónir króna að sögn Hafbergs. Morgunblaðið/Karitas

„Afkoman í fyrra var í járnum, en árið þar áður var betra. Það er ýmislegt í umhverfinu sem ekki er nógu hagfellt fyrir ræktendur eins og mig. Starfsmannakostnaður er hár, sá hæsti í Evrópu, og það sama má segja um vexti. Svo hefur rafmagnskostnaður hækkað um 100% á fjórum árum,“ segir Hafberg Þórisson eigandi og bætir við að um síðustu áramót hafi rafmagnið hækkað um 30%. 32 starfa hjá Lambhaga.

„Við höfum gripið til þess ráðs að minnka raforkunotkunina. Framleiðendur á Spáni og Ítalíu búa ekki við þetta sama. Þar er ekkert rafmagn í gróðurhúsunum heldur nægir þeim sólarljósið,“ bætir Hafberg við en ítrekar um leið mikilvægi þess að halda áfram ræktun á grænmeti á Íslandi. Ef það yrði ekki gert yrði ekki eins fýsilegt að búa hér að hans mati. „Við búum á kaldri eyju. En til þess að framleiðslan sé áfram hagkvæm er nauðsynlegt að halda áfram að sjálfvirknivæða hana.“

Græðgi ræður hækkunum

Hann segir að verðhækkanir á rafmagni eigi sér enga stoð í öðru en græðgi, og þá sé sama hvaða framleiðanda skipt er við. „Þeir hækka allir rafmagn í sama takti. Það eru sömu borholurnar í gangi, sama vatnið að renna í virkjanirnar og áður. Allt er óbreytt. Samt hækkar verðið og hækkar. Rafmagn er um þriðjungur af rekstrarkostnaðinum.“

Hafberg varð fyrir skakkaföllum í faraldrinum einkum vegna tafa og vandræða við verksmiðju sem hann setti á stofn í Danmörku til að framleiða ræktunarvélarnar. „Hún var starfrækt í tvö ár og framleiddi ýmislegt fleira en bara ræktunarvélar. En ég var óheppinn með samstarfsmann sem lifði of hátt og verksmiðjan hætti starfsemi eftir að ég var farinn úr rekstrinum. Ég lagði fyrirtækinu til allt rekstrarfé.“

Þrátt fyrir áföll í faraldrinum sótti Hafberg ekki um rekstrarstyrki eða lán. „Ég hef alltaf staðið á eigin fótum og aldrei sótt um aðstoð,“ segir Hafberg en tækin í nýja húsið kostuðu 700 milljónir króna. „Það fór svo að við þurftum að endurbyggja tækin eftir að þau komu hingað, sem var mjög kostnaðarsamt. Vélarnar virkuðu ekki nógu vel þegar á hólminn var komið. Hugbúnaðurinn er hinsvegar allur smíðaður á Íslandi.“

Hafberg segir að dóttir hans, sem er að klára nám í Garðyrkjuskólanum, sé að koma inn í reksturinn sem eigandi. „Við erum að fara á tvær sýningar í útlöndum þar sem við kynnum okkur það allra nýjasta í bransanum, ásamt því að hitta ýmsa kollega sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Þeir koma líka reglulega í heimsókn til mín.“

Býr til sína eigin mold

Hafberg sér sig nú knúinn til að búa til sína eigin mold. „Sú mold sem flutt er inn hingað til lands er mosi frá Lettlandi. Frá og með 2030 verður þeim meinað að flytja vöruna hingað til lands. Þá vil ég vera kominn með sjálfbæra moldarframleiðslu. Við nýtum afganga og affall af gróðurhúsunum og náum að búa til mold á 5-7 dögum. Þessi þróun er langt komin.“

Þó að Hafberg rækti nú eingöngu salat og dálítið af kryddjurtum var hann á sínum tíma stórtækur í ræktun á pottaplöntum. „Ég sá um allar plöntur í flugstöð Leifs Eiríkssonar í tuttugu ár. Svo fyllti ég Perluna af plöntum. Ég var þar í byggingarnefnd. Plönturnar eru þó farnar núna af báðum stöðum.“

Framkvæmdastjórinn hefur alltaf unnið mikið. „Á meðan ég hef gaman af þessu er engan bilbug á mér að finna. Ég hef líka alltaf lagt mikið upp úr að gera sem mest sjálfur með starfsfólki mínu. Ég á til dæmis allar vinnuvélar sjálfur,“ segir hann og bendir á traktorsgröfur, valtara og fleiri tæki. „Ég var einmitt að grafa í Lundi til klukkan níu í gærkvöldi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK