Breitling flýgur inn til lendingar

Navitimer, Premier og Superocean Heritage eru öll merkileg fyrir margra …
Navitimer, Premier og Superocean Heritage eru öll merkileg fyrir margra hluta sakir.

Það hefur eflaust glatt marga unnendur armbandsúra þegar það spurðist út að Michelsen myndi taka við Breitling-umboðinu. Breitling var áður hjá Leonard sem lokaði verslun sinni í Kringlunni snemma árs 2020 og hefur síðan þá eingöngu rekið netverslun. Hjá Michelsen hefur Breitling eignast gott nýtt heimili og á aðventunni hélt búðin heilmikið húllumhæ til að fagna þessari merkilegu viðbót við vöruúrvalið.

Á þessum tímamótum er ágætt að nota lífsstílsdálk ViðskiptaMoggans til að renna lauslega yfir sérkenni og sögu Breitling og benda á sum áhugaverðustu eintökin sem þar eru smíðuð. Breiddin í framleiðslunni hjá Breitling er nefnilega mjög mikil og úrin í sýningarborðinu hjá Michelsen sennilega ekki nema um 10% af vörulista framleiðandans – en vitaskuld má alltaf sérpanta draumaúrið ef það er ekki til á lager.

Breitling er rótgróið svissneskt merki, stofnað árið 1884 og smíðaði m.a. fyrsta armbandsúrið með innbyggðri skeiðklukku. Fullkomin skeiðklukkugangverk urðu fljótlega aðalsmerki Breitling og þóttu úrin þeirra ómissandi fyrir vissar stéttir. Sást þetta hvað best með tilkomu flugmannaúrsins Navitimer sem kynnt var til leiks um miðja síðustu öld, en í því úri var ekki bara skeiðklukka heldur einnig snúningsskífa og alls kyns merkingar sem gerðu úrið að nytsömu verkfæri til að gera hvers kyns flugútreikninga í hvelli.

Þykja Navi­timer-úrin afskaplega falleg og klassísk, og óhætt að kalla þau stórstjörnur í úraheiminum.

Navitimer er ein af níu línum sem Breitling framleiðir og læt ég duga að nefna sérstaklega þrjár línur til viðbótar sem mér þykja bera af:

Top Time línan er litrík og vísar til frægra sportbíla …
Top Time línan er litrík og vísar til frægra sportbíla og mótorhjóla.

Premier-úrin eru þau sparilegustu í Breitling-fjölskyldunni og öll mjög klassísk í útliti en samt með skeiðklukku. Flest eru þau með leðuról og smíðuð ýmist úr stáli, gulli eða platínu, og kosta frá 1,4 milljónum króna upp í bílverð og rúmlega það.

Top Time-úrin eru aftur á móti sportlegri og litríkari og var þeim upphaflega ætlað að höfða til yngri kaupenda. Top Time hefur sterka tengingu við kappakstur og í línunni má t.d. finna úr sem eru kennd við Shelby Cobra, Chevrolet Corvette, og mótorhjólin frá Triumph.

Loks má nefna Super­ocean Heritage-kafaraúrin, en Breitling var með þeim fyrstu til að framleiða alvöru kafaraúr upp úr miðri síðustu öld. Hönnunin hefur elst vel og eru úrin sterkbyggð, stílhrein og svipsterk.

Nýr maður í flugstjórasætinu

Breitling hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu en vogunarsjóður eignaðist fyrirtækið árið 2017 og setti Georges Kern í forstjórastólinn. Hann hafði áður stýrt IWC Schaffhausen og verið yfirmaður úradeildar lúxusvöruveldisins Richemont, og var ekki lengi að snúa rekstrinum við.

Áður en Kern lét að sér kveða þótti mörgum að Breitling hefði staðið í stað um langt skeið og að lítið hefði verið um áhugaverðar nýjungar hjá félaginu, en með Kern komu ferskir vindar og hefur Breitling gengið í endurnýjun lífdaga.

Annars er það um úrin frá Breitling að segja að þau þykja í stærri kantinum og henta því ekki endilega fólki með nettar hendur og granna úlnliði. Það má þó finna nokkur dömuúr inn á milli, eins og t.d. 36 mm Navitimer, en stærstu Navi­timer-úrin eru allt að 46 mm á breiddina.

Hið ljúfa líf er viku­leg­ur lífstíls­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK