Þórður Gunnarsson hagfræðingur skrifar:
Orkuskortur og neyðarástand í orkumálum eru hugtök sem hafa verið á vörum flestra undanfarin misseri á Íslandi. Skyldi engan undra, en fyrirsjáanlegar afleiðingar sofandaháttar í þeim efnum eru nú þegar farnar að gera vart við sig. Orkuverð hefur hækkað mikið og lögmál framboðs og eftirspurnar geta svo veitt ágætt forspárgildi um hver þróun næstu ára verður. En eins og margoft hefur komið fram í fréttum eru litlar líkur til þess að orkuframboð aukist mikið hér á landi næstu árin.
En víðar en á Íslandi eru sömu mál til umræðu. Þegar Donald J. Trump var svarinn inn sem 47. forseti Bandaríkjanna í upphafi viku nefndi hann meðal annars í ávarpi sínu að neyðarástandi í orkumálum yrði lýst yfir innan skamms. Fyrir það fyrsta er ansi hressandi að heyra mann í einu valdamesta embætti heims ræða um neyðarástand í orkumálum fremur en loftslagsmálum, en geymum þá umræðu fyrir annan dag. En hvað á Trump við þegar hann talar um neyðarástand í orkumálum Bandaríkjanna?
Eitt eiga Bandaríkin sameiginlegt með Íslandi í þeim efnum. Flutningskerfi raforku þar í landi er að niðurlotum komið vegna undirfjárfestingar til lengri tíma. Meðalaldur flutningskerfis Norður-Ameríku er um 40 ár, á meðan Kína státar af flutningskerfi sem er að meðaltali helmingi yngra. Flutningskerfi raforku og uppbygging þess er í raun nokkurs konar vígbúnaðarkapphlaup okkar tíma, enda eru þau lönd sem dragast aftur úr við tækniþróun þau sem munu verða eftir á í lífskjarasókninni.
Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir raforku aukist hratt í Bandaríkjunum, einkum vegna hraðrar uppbyggingar gagnavera. Stjórnmálamönnum er mörgum hverjum mjög tamt að tala um hversu mikil tækifæri felast í gervigreind. Hins vegar vita færri að þau gagnaver sem standa undir rekstri sívaxandi gervigreindariðnaðar eru margfalt orkufrekari en hefðbundin gagnaver. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs sagði frá því á síðasta ári að gagnaver stæðu að baki um 1-2% af allri raforkueftirspurn sem stendur. Á næstu fimm árum mun þetta hlutfall tvöfaldast vegna mikils vaxtar gervigreindariðnaðarins.
Raforkunotkun gagnavera á heimsvísu tvöfaldaðist á fimm ára tímabilinu 2019 til 2023 úr 200 í 400 teravattstundir (öll raforkunotkun Íslands er um 20 teravattstundir í samanburði). Árið 2030 verður raforkunotkun gagnavera á heimsvísu yfir 1.000 teravattstundir – þó að þessar tölu séu að vísu byggðar á greiningu frá fyrri hluta síðasta árs og feli eflaust nú þegar í sér vanmat á vextinum sem fram undan er.
Fjárfesting þriggja fyrirtækja – Google, Microsoft og Amazon – í gagnaverum á árinu 2023 var meiri en öll fjárfesting bandarísks olíu- og gasiðnaðar samanlagðs á sama ári. Microsoft samdi nýlega við eiganda Three Mile Island-kjarnorkuversins, sem var lokað árið 2019, um að hefja starfsemi þar aftur. Uppsett afl kjarnorkuversins er um 820 megavött. Microsoft mun kaupa hverja einustu kílóvattstund og greiða á bilinu 110 til 115 bandaríkjadali fyrir megavattstundina. Til samanburðar má lesa úr ársreikningum orkufyrirtækja hér á landi að meðalverð til stórnotenda er ríflega þriðjungur þess verðs.
Fyrir ekki löngu síðan var mikið rætt og ritað um lagningu orkusæstrengs frá Íslandi til að selja raforkuna úr landi og ná þannig fram hærra verði. Með miklum vexti gagnaversiðnaðar á heimsvísu þarf ekki að ræða slíkar hugmyndir áfram. Gagnasæstrengir kosta brotabrot af því sem orkustrengir kosta, en mögulegt er að ná fram miklu hærra útflutningsverði á raforkunni með sölu til gagnavera, eins og samningur Microsoft við Three Mile Island sýnir.
Áðurnefndur Donald Trump sagði eitt sinn: „Þú þarft hvort sem er alltaf að hugsa, svo hví ekki að hugsa stórt?“ Þrátt fyrir að undirrituðum sé nákvæmlega sama um hvort viðskiptavinir gagnavera nýti reiknigetu þeirra til að grafa eftir rafmynt eða þróa gervigreindartækni, svo lengi sem þeir borgi uppsett verð, eru stór tækifæri og mikill vöxtur fram undan í geiranum. Byrjum á því að gera vatnsaflsvirkjanir aftur löglegar, en blásum svo til sóknar í orkumálum.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.