Svipmynd: Málsmeðferðin er hröð og skilvirk

Hjördís Birna segir að alþjóðleg fyrirtæki geti sniðið málsmeðferðina hjá …
Hjördís Birna segir að alþjóðleg fyrirtæki geti sniðið málsmeðferðina hjá gerðardómi ICC að sínum þörfum, sem spari bæði tíma og peninga. Ljósmynd/Aðsend

Hjördís Birna Hjartardóttir, sviðsstjóri hjá gerðardómi Alþjóðaviðskiptaráðsins (ICC), hlaut nýlega viðurkenningu sem framtíðarleiðtogi á sviði alþjóðlegs gerðarréttar frá einum stærsta rannsóknarmiðli á sviði lögfræði á heimsvísu, Lexology. Hjördís segir tilnefninguna byggða á umsögnum frá skjólstæðingum og sérfræðingum sem starfi innan sama geira.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Gerðardómur Alþjóðaviðskiptaráðsins (ICC) er leiðandi á heimsvísu á sviði alþjóðlegrar gerðarmeðferðar og sá gerðardómur sem alþjóðleg fyrirtæki kjósa helst til að leysa úr sínum viðskiptadeilum. Á hverju ári eru á bilinu 800-900 ný mál skráð hjá dómnum og það eru mál á milli fyrirtækja frá öllum heimshlutum og á öllum sviðum viðskiptalífsins.

Það er auðvitað áskorun að vera stöðugt á tánum, viðhalda forystunni andspænis aukinni samkeppni og mæta vaxandi þörfum viðskiptalífsins. Fyrirtæki vilja ekki eyða tíma eða peningum í deilur umfram það sem nauðsynlegt er og það er okkur því kappsmál að bjóða upp á málsmeðferð sem er eins hröð og skilvirk og hægt er.

Sömuleiðis leggjum við lykiláherslu á að fyrirtæki geti sniðið málsmeðferðina að sínum þörfum, einkum varðandi trúnað og val á gerðarmönnum með sérþekkingu á deiluefninu sem getur verið mjög sérhæft.

Ástandið í heimsmálunum býður upp á ýmsar áskoranir enda hefur það áhrif á fyrirtæki á alþjóðamarkaði og þær deilur sem upp koma. Stríðið í Úkraínu er gott dæmi og þær viðskiptaþvinganir sem það hefur haft í för með sér. Við höfum fundið fyrir þessum þvingunum hjá ICC, bæði hvað varðar daglegan rekstur sem fellur undir þessar þvinganir, og þær tegundir deilna sem koma til okkar.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég sæki helst í fólkið í kringum mig, bæði samstarfsfólk og mitt nánasta fólk. ICC er mjög alþjóðlegur vinnustaður og þar vinn ég með fólki frá öllum heimshornum sem er iðulega með öðruvísi bakgrunn og reynslu en ég. Ég þrífst vel í slíku umhverfi þar sem er mikil fjölbreytni og spretta oft upp ferskar hugmyndir og skapandi lausnir.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Það er ýmislegt spennandi framundan. ICC var t.d. að opna nýja aðstöðu fyrir munnlegan málflutning í gerðarmálum í hjarta Parísar. Málflutningur í gerðarmálum fer fram fyrir lokuðum dyrum, ólíkt því sem gildir hjá almennum dómstólum, og þegar málin eru stór og tæknilega flókin getur málflutningur tekið marga daga og jafnvel vikur.

Þá er mikilvægt að við getum boðið upp á hágæða aðstöðu sem tryggir að allt gangi smurt fyrir sig. Þetta er valkvæð þjónusta enda er ekkert sem segir að munnlegur málflutningur þurfi að fram í París; málsaðilar geta ákveðið að hann skuli fara fram hvar sem er í heiminum eða jafnvel í gegnum fjarfundabúnað, sem við sjáum í auknum mæli.

Annars er fram undan áframhaldandi umsjón með þeim málum sem heyra undir mitt svið, en það eru þau mál sem helst tengjast Mið- og Austur-Evrópu. Við leysum ekki úr deilunum sem slíkum; það fellur í hlut þeirra gerðarmanna sem málsaðilar tilnefna eða ICC skipar.

Við förum hins vegar með umsjá málanna og tryggjum að þau séu rekin í samræmi við kröfur ICC og að þeim ljúki með aðfararhæfum úrskurði sem málsaðilar geta fullnustað í þeim löndum sem um ræðir. Dómsniðurstaða sem flókið og seingert er að fullnusta hefur takmarkað virði, en það er einmitt einn helsti kostur gerðarmeðferðar umfram almenna dómstóla að gerðardómsúrskurðir eru fullnustuhæfir í öllum þeim 172 löndum sem eiga aðild að New York-sáttmálanum, og Ísland er þar með talið.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég sæki mikið af ráðstefnum á sviði alþjóðlegs gerðardómsréttar víða um Evrópu og er líka reglulega beðin um að flytja erindi eða taka þátt í málstofum fyrir hönd ICC. Stór hluti deilumála á mínu sviði innan ICC varðar orkurétt og verktakarétt. Ég hef einnig verið gestafyrirlesari í alþjóðlegum gerðardómsrétti við erlenda háskóla, sem heldur mér á tánum.

Ég skrifaði bókarkafla nýlega í safnrit um stafræna málsmeðferð í einka- og gerðardómsmálum gefið út af Norstedts Juridik. Stafræn málsmeðferð er framtíðin og þar liggja mikil tækifæri.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Íslensku lögunum um samningsbundna gerðardóma frá árinu 1989 sem eru komin til ára sinna og hefðu gott af yfirhalningu. Ég myndi líka hvetja íslensk fyrirtæki til umhugsunar um kosti gerðarmeðferðar, sérstaklega þau fyrirtæki sem standa í samningagerð við erlenda aðila.

Þau verða að gera ráð fyrir því að deilur komi upp í framtíðinni. Enginn vill spila á útivelli í heimalandi mótaðila þar sem málsmeðferðin getur tekið langan tíma með ófyrirsjáanlegum lagaramma.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK