Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku hefur gefið út nýja greiningu í kjölfar tilkynningar um verðbólgutölur fyrir janúar. Þar mældist ársverðbólgan 4,6% sem er -0,27% lækkun milli mánaða í janúar.
Í greiningu Hafsteins vísar hann til þess að það sé einkum óvænt lækkun húsnæðisliðarins ásamt lækkun flugfargjalda sem hafi áhrif. Vöruverð lækkaði mun minna en Kvika hafði búist við. Í greiningunni eru ýmis rök færð fyrir því að vaxandi tregða sé í þeirri verðbólgu sem eftir stendur, vísar sem dæmi til þess að árstaktur kjarnavísitölu 4, sem mælir verðbólgu án ýmissa sveiflukenndra liða, opinberra gjalda og reiknaðrar húsaleigu, hafi hækkað úr 3,2% í 3,4% frá fyrri mánuði. Verðbólga án húsnæðis hækkaði að sama skapi úr 2,8% í 3,0%.
Fram kemur að góð hjöðnun sé í kortunum samhliða því sem óvenjustórar hækkanir húsnæðisliðarins, opinberra gjalda og flugfargjalda detta nú úr 12 mánaða takti verðbólgunnar. Í greiningunni er ítrekað að líkur séu á að verðbólga verði komin undir vikmörk í mars.
Á næsta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans, sem kemur saman 5. febrúar, gerir Hafsteinn ráð fyrir 50 punkta lækkun. Skýr kólnunarmerki séu á fasteignamarkaði og verðbólguvæntingar hafi almennt lækkað mikið.
Í samtali við Morgunblaðið bendir Hafsteinn á:
„Ég hugsa að valið standi á milli þess að lækka vexti um 25 eða 50 punkta. Nefndin hefur verið mjög varfærin svo það er líklega takmarkaður áhugi á að stíga stærra skref en það í bili. Það er ennþá fínn viðnámsþróttur í hagkerfinu, ekki síst á vinnumarkaði, og töluverður uppsafnaður sparnaður sem situr á hliðarlínunum, svo nefndin hefur haft áhyggjur af því að missa stjórn á eftirspurnarhlið hagkerfisins ef taumhaldið er losað of hratt. En þessi hjöðnun verðbólgu og -væntinga síðan í nóvember ætti að gefa peningastefnunefnd svigrúm til að aðlaga nafnvextina og lækka aftur um 50 punkta á fundi sínum í næstu viku án þess að losa taumhaldið að ráði.“
mj@mbl.is