Neytendasamtökin benda á að ríkisstjórnin í Noregi hafi kynnt þá fyrirætlun sína að frá 1. október 2025 verði heimilum gerður fastverðssamningur um rafmagn á 40 norska aura/kWh, sem jafngildir um fimm íslenskum krónum á hverja kílóvattstund rafmagns.
Í samtali við Morgunblaðið segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna: „Raforkuverð hefur að undanförnu hækkað mun meira en almennt verðlag og ef ekkert verður að gert mun staðan hjá okkur verða svipuð og í Norður-Evrópu þar sem raforka hækkaði fyrir nokkrum árum þrefalt, fjórfalt og hefur ekki náð að lækka aftur. Þetta getum við komið í veg fyrir ef við viljum.“
Í samanburði við Noreg er raforkuverð heimila á Íslandi um 10-13 kr/kWh og virðist fara hækkandi. Með þessari aðgerð í Noregi yrði raforka til heimila meira en helmingi lægri í Noregi en á Íslandi.
Að mati Neytendasamtakanna hefur íslenska ríkið þegar skuldbundið sig til að tryggja lágt orkuverð til heimila, sbr. Evróputilskipanir. Neytendasamtökin hafa gengið svo langt að krefjast þess af þingmönnum að þeir tryggi að þak verði sett á arðsemi raforku til heimila landsins. Með slíkri aðgerð væri rafmagn meðhöndlað á sama hátt og sala á heitu og köldu vatni til heimila þar sem þak er á arðsemi.
„Með því að leggja þær skyldur á stærri raforkuframleiðendur að veita 5% framleiddrar orku sinnar inn á „heimilismarkað“, hvar afar hóflegrar arðsemi er gætt, mætti stuðla að þjóðarsátt um þær virkjanir sem nauðsynlegt er að ráðast í. Líta mætti á það sem nokkurs konar afgjald fyrir þá röskun sem virkjanir óhjákvæmilega valda,“ bætir Breki við.
mj@mbl.is