Rafmyntir verða gjaldmiðill gervigreindar

Guðlaugur Steinarr Gíslason fjárfestingastjóri og meðstofnandi Visku Digital Assets ehf.
Guðlaugur Steinarr Gíslason fjárfestingastjóri og meðstofnandi Visku Digital Assets ehf. Ljósmynd/Aðsend

Guðlaugur Steinarr Gíslason fjárfestingastjóri og meðstofnandi Visku Digital Assets skrifar: 

Í heimi þar sem stafrænar lausnir verða sífellt mikilvægari er áhugavert að skoða hvernig gervigreind mun smám saman gegna stærra hlutverki í daglegu lífi okkar. Gervigreind, sem nú þegar er orðin að öflugri upplýsingaveitu eins og ChatGPT, er á hraðri leið að þróast yfir í það að geta veitt einstaklingum og fyrirtækjum nýja tegund þjónustu sem kallast sérhæfðir gervigreindarráðgjafar (e. AI agents). Með því að tengja þessa ráðgjafa við rafmyntir í gegnum bálkakeðjuinnviði er síðan hægt að láta þá framkvæma viðskipti fyrir hönd okkar og auka þannig sjálfvirknivæðinguna til muna.

Fyrirtæki gæti nýtt gervigreind til að útbúa markaðsherferð, keypt auglýsingapláss og greitt fyrir birtingu á markaðsefni. Þetta gæti allt verið framkvæmt án milligöngu starfsmanna, innan fyrirfram skilgreindra viðmiða. Eins munu almenningur og fyrirtæki hafa sinn eigin gervigreindarráðgjafa í síma eða tölvu sem þekkir notandann og getur gefið ráðleggingar byggðar á þeim upplýsingum sem veittar eru hverju sinni. Þetta væri eins og að hafa sinn eigin aðstoðarmann. Þessir ráðgjafar munu ekki aðeins veita ráð um hluti eins og mataræði og hreyfingu, heldur taka að sér verkefni á borð við matarinnkaup og gjafainnkaup og gætu jafnvel bókað ferðalög.

Til þess að þessi þróun verði að veruleika er nauðsynlegt að gervigreindin geti nýtt tækni sem styður greiðslumiðlun á öruggan og skilvirkan hátt. Þar kemur bálkakeðjutæknin (e. blockchain) og rafmyntir inn í myndina. Rafmyntir, sem byggja á bálkakeðjutækni, gera einstaklingum kleift að eiga milliliðalaus viðskipti án aðkomu banka, kortafyrirtækja eða annarra miðlægra aðila. Þessi nálgun tryggir örugg og skilvirk viðskipti um heim allan, þar sem notendur geta sett skýr skilyrði fyrir viðskiptum sínum í gegnum sína eigin gervigreindarráðgjafa.

Meginávinningurinn við að nota bálkakeðjutæknina fram yfir hefðbundna greiðsluinnviði er dreifstýringin (e. decentralization). Dreifstýring gengur út á það að 2 aðilar geta átt viðskipti beint á milli sín án milliliða. Með færri milliliðum verða viðskipti hraðari og ódýrari en nokkru sinni fyrr. Greiðslur verða nær samstundis og kostnaður við þær gæti farið niður fyrir eina krónu. Þetta opnar á möguleikann á að senda og taka á móti greiðslum allan sólarhringinn, alla daga ársins, óháð landamærum. Þrátt fyrir að netbankar séu mikið notaðir í dag, eru enn takmarkanir á því hversu háar upphæðir má millifæra, hvenær er opið fyrir erlendar greiðslur, og hvað það kostar. Það tekur oft daga fyrir millifærslur að ganga í gegn og kostar þúsundir króna. Með samspili gervigreindar og rafmynta má útrýma þessum hindrunum og auka sjálfvirkni í viðskiptum.

Dæmi um slíka sjálfvirkni eru bílar og önnur farartæki sem gætu sjálfkrafa greitt fyrir stöðumæla, jarðgöng og fleira. Á fjármálamörkuðum gætu gervigreindarráðgjafar flutt sparnað milli reikninga í leit að hagstæðustu vaxtakjörum eða jafnvel fjárfest í verðbréfum, sem á næstu árum munu færast meira yfir á bálkakeðjuinnviði, sem auðveldar þessa þróun. Í heilbrigðiskerfinu gæti gervigreind flýtt rannsóknum á lyfjum og meðferðum á meðan bálkakeðjutæknin tryggir örugga meðferð viðkvæmra upplýsinga án þess að þær verði persónugreinanlegar.

Þessi dæmi eru aðeins brot af þeim fjölmörgu sviðum þar sem samspil gervigreindar og bálkakeðjutækni gæti skapað byltingu sem við sjáum ekki fyrir endann á. Líklegt er að þróunin muni taka á sig mynd á næstu áratugum, líkt og internetið, sem enn þann dag í dag skapar ný tækifæri.

Gervigreind og bálkakeðjutækni hafa því möguleika á að verða næsta stóra tæknibyltingin. Þar sem internetið umbreytti miðlun og meðferð upplýsinga, mun bálkakeðjutæknin umbreyta meðferð verðmæta. Samspil þessara tækniþátta gæti leitt til framfara í samfélaginu af áður óþekktri stærðargráðu. Það eru því spennandi tímar fram undan og margt sem bendir til þess að þessi þróun sé aðeins rétt að byrja.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka