Jón Finnbogason framkvæmdastjóri Stefnis segir það vera blessun að fá tækifæri til að vinna með stórum hópi fagfólks hjá Stefni en félagið hefur um margra áratuga skeið verið í fararbroddi vöruþróunar í sjóðastýringu á Íslandi.
Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi Stefnis en eignir í stýringu félagsins voru um 336 milljarðar króna um sl. áramót sem er hækkun um 89 milljarða króna á árinu 2024 eða um 35% hækkun.
Jón segir að þegar litið sé um öxl þá standi upp úr að á árinu 2024 gekk SRE III slhf., sjóður í stýringu hjá Stefni og að fullu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, frá kaupum á félaginu Íveru ehf. en félagið er stærsta íbúðaleigufélag landsins með um 1.600 íbúðir í langtímaleigu. Fjárfestingin markar tímamót á fasteignamarkaði á Íslandi.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Við stýringu fjármuna eru sömu áskoranir nú og áður. Rétt greining á aðstæðum leikur þar lykilhlutverk. Í öllu tali um áskoranir sem við glímum við í fjárfestingarumhverfi hérlendis gleymist oft hvað árangur okkar samfélags hefur verið gríðarlegur á síðustu 100 árum eða svo. Það þarf ekki að fara langt aftur í söguna þegar sjómennska fór fram í opnum róðrarbátum og öll vinnsla eftir því. Þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað á þessu tímabili hafa skilað samfélaginu ótrúlegum framförum.
Ekki er þó hægt að horfa fram hjá þeirri vaxandi spennu sem við verðum vör við í okkar alþjóðlega umhverfi. Óumflýjanlegt er að staldra við setningar líkt og fram koma í inngangsorðum þáverandi utanríkisráðherra, Þórdísar Gylfadóttur, í skýrslu frá 28. nóvember sl.; „Samantekt um áherslur og aðgerðir í varnarmálum“, en þar stendur meðal annars: „Spenna fer vaxandi og er ekki lengur hægt að útiloka hernaðarátök í heiminum sem haft geta meiri áhrif á Íslandi en nokkru sinni fyrr á lýðveldistímanum.“ Það er því hugsanlega betra að vera á varðbergi.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Samvera með ört stækkandi fjölskyldu gefur mér mikið. Nýlega varð ég afi sem er frábær upplifun. Þá er útivera sífellt að fá vaxandi sess í leið minni til að ná góðri jarðtengingu.
Hvaða bók eða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ég hef lengi haft miklar mætur á Warren Buffett, sem vart þarf að kynna til leiks hér. Ég hef kynnt mér mikið af efni sem hefur komið frá honum og einnig viðskiptafélaga hans, Charles Munger. Einstakir menn.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Ég les og hlusta á mikið af efni, bæði bækur og annað aðgengilegt efni. Hljóðbækur og hlaðvörp eru í miklu uppáhaldi. Hrós til allra þeirra sem halda úti öflugum hlaðvörpum á Íslandi. Þeir sem starfa á fjármálamarkaði verða að vera stöðugt að afla sér þekkingar. Var að klára bókina The Lost Bank, the Story of Washington Mutual eftir Kirsten Grind. Bókin gefur alveg ótrúlega ítarlega mynd af því sem gerist í aðdraganda þess að JPMorgan Chase tók yfir reksturinn. Stórbrotin saga sem má ekki gleymast.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Ég hjóla í vinnuna eins oft og ég get. Með því að hjóla til og frá vinnu sameina ég í eitt ágæta líkamsrækt, útiveru og að hlusta á fróðlegt efni.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Sjálfsmenntun veitir mér mikla lífsfyllingu. En eitthvað tengt hagsögu kæmi þó helst til greina ef ég yrði að velja eitthvað.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Hátt vaxtastig er þungur baggi á atvinnulífinu. Seðlabankinn hefur verið einn á bremsunni. Hreinar skuldir ríkissjóðs hafa vaxið um 162 ma.kr. á árinu 2024 og 237 ma.kr. ef skuldasöfnun 2023 er bætt við. Hið opinbera hefur því lítið gert til að sporna við verðbólguþrýstingi. Ný ríkisstjórn ætlar að ná fram stöðugleika í efnahagslífið og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Bindum vonir við að svo verði.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Ég myndi nýta tækifærið mjög vel. Hér eru aðeins nokkur dæmi um lagabreytingar:
Ríkið selji fasteignir sem það þarf ekki sjálft að eiga, lögum 13/2015 um opinber fjármál yrði breytt þannig að skuldareglan yrði strax virkjuð en nú er gert ráð fyrir að skuldareglan taki fyrst gildi 2026. Einföldun skipulagsferlis vegna framkvæmda við virkjunarkosti. Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki felldir niður. Draga úr opinberum stuðningi á eftirspurnarhlið á fasteignamarkaði í formi hlutdeildarlána og efla framboðshlið fasteignamarkaðar með þeirri einföldu lausn að fella úr gildi úrelt ákvæði um neitunarvald Reykjavíkurborgar á þróun á vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins.