Hvernig kemst ég í stjórn fyrirtækis?

Ingunn Agnes Kro, stjórnarmaður og ráðgjafi.
Ingunn Agnes Kro, stjórnarmaður og ráðgjafi. Ljósmynd/Votlendissjóður

Ingunn Agnes Kro stjórnarmaður og ráðgjafi skrifar:

Þetta er spurning sem ég fæ ítrekað að heyra. Nú er aldeilis vertíðin til þess að róa á þessi mið, svo ég ætla í eitt skipti fyrir öll að svara spurningunni, eins og hún snýr við mér.

Hvaða stein vantar viðkomandi í steinasafnið sitt?

Hvaða reynslu, þekkingu eða eiginleika hefur þú, sem hluthafinn telur vanta inn í stjórn fyrirtækisins, eða væri hægt að bæta? Þá gjarnan horft fram á við, í þá átt sem umhverfið og fyrirtækið eru að þróast. Til þess að nefna dæmi, hefur þetta hjá sjálfri mér verið: skráning fyrirtækis í kauphöll, vetni, stjórnarhættir, lögfræðimenntun, orkugeirinn og að lokum stjórnarreynsla.

Ekki reyna við allt sem hreyfist

Ekki láta fyrirtækin fá það á tilfinninguna að þig langi bara í stjórnarsæti, alveg sama hvar. Þrengdu sjónarsviðið niður í aðila sem hafa gagn af þinni sérstöðu.

Hvar á að fiska?

Einfaldasta nálgunin er hjá þeim skráðu fyrirtækjum sem eru með tilnefningarnefndir. Á vefsíðum fyrirtækjanna má finna framboðseyðublöð og upplýsingar um hvernig maður ber sig að. Yfirsýn yfir skráð fyrirtæki má t.d. finna inni á keldan.is.

Lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í fjölmörgum fyrirtækjum. Sumir þeirra halda lista yfir fólk sem hefur áhuga á stjórnarstörfum. Lista yfir lífeyrissjóði má finna undir „eftirlitsskyldir aðilar“ á vefsíðu fjármálaeftirlits Seðlabankans.

Ákveðnir sjóðir fjárfesta tímabundið í fyrirtækjum og taka þá oft eitt stjórnarsæti. Sjóðirnir geta verið t.d. bundnir við ákveðna geira eða ákveðinn stað í lífsferli fyrirtækja; sprota, fyrirtæki í vexti, útrás og umbreytingu á þroskuðum fyrirtækjum. Lista yfir rekstraraðila sérhæfðra sjóða má finna á áðurnefndri vefsíðu Seðlabankans.

Einkafjárfestar geta stundum verið af þeirri stærð að þeir koma að stjórnarmanni. Lista yfir stærstu hluthafa skráðra fyrirtækja má finna á vefsíðum þeirra.

Aðrir aðilar eru t.d. fyrirtæki í hreinni einkaeigu og ráðningarstofurnar.

Kalt kall (e. cold call)

Það getur verið erfitt að biðja einhvern um að byrja með sér, í fyrsta skipti sem maður hittir viðkomandi. Oft er gerð krafa um reynslu – af stjórnarstörfum. Ef hún er ekki til staðar verður sérfræðiþekkingin að vera þeim mun dýpri og orðspor getur riðið baggamuninn.

Hefur þú rækilega sannað þig fyrir einhverri/einhverjum? Er viðkomandi til í að greiða þína götu? Líkurnar á árangri eru alltaf meiri þar en að biðja manneskju sem þekkir þig ekkert um að mæla með þér. Hvað veit viðkomandi nema þú sért axarmorðingi?

Umhugsunarefni

Þú ert ekki mætt /-ur til að vera í stjórn eða stjórnarandstöðu. Bestu stjórnirnar vinna saman sem eitt teymi, í átt að sameiginlegri niðurstöðu, með hagsmuni fyrirtækisins og hagaðila í fyrirrúmi.

Kanntu að vinna með fólki á jafningjagrundvelli? Stjórnarstarf snýst um að ræða mál til hlítar, þannig að allir koma sínum skoðunum að og kostir og gallar eru vegnir og metnir. Þú þarft að þola að hafa haft rangt fyrir þér, þegar heildarsamhengið hefur verið metið.

Þitt hlutverk, sem stjórnarmaður, er ekki það sama og forstjóra eða framkvæmdastjóra. Hlutverkið er stefna og aðhald. Og gildi. Þetta er ekki verkefni fyrir ofstjóra (e. micromanagers). Þó svo að vissulega færist stjórnin nær í krísum. Ef þú reynir að ofstýra fólki sem er af þeim kalíber að það er orðið að forstjórum og framkvæmdastjórum, mun það annaðhvort hætta eða missa metnaðinn og ábyrgðartilfinninguna fyrir verkefnunum.

Ertu viss um að þú viljir þetta? Þegar allt fer í skrúfuna ert þú fremst í stafni, með vindinn í fangið. Þá þýðir ekkert að verða sjóveikur.

Gangi þér vel!

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK