Flutningafyrirtækið Torcargo hefur verið í öflugu samstarfi frá árinu 2009 við danska flutningsmiðlarann DSV. „Þeir eru nú á lokametrunum að kaupa þýska ríkisfyrirtækið DB Schenker. Eftir það verða þeir stærsta flutningsmiðlun í heimi. DSV er með 1.600 starfsstöðvar nú þegar um allan heim og þeim mun fjölga til muna við kaupin. Okkar staða hefur breyst úr „Agent“ í „Strategic partner“ sem þýðir meira og dýpra aðgengi inn í kerfi þeirra. Í gegnum tíðina höfum við verið með mjög öfluga þjónustu í samvinnu við DSV. Fyrir utan lausnir með heilgáma erum við til dæmis að sækja lausavöru hvar sem er inn í vöruhús DSV og safna í gáma í Rotterdam og í Danmörku. Svo er siglt vikulega til Íslands og við dreifum vörunum þar. Þetta er áreiðanlegt og skilvirkt kerfi og staða okkar styrkist enn frekar við þessar breytingar.“
Annað sem Torcargo hefur verið að skoða er hagnýting á öflugu vöruhúsaneti DSV í Evrópu og í Bandaríkjunum. „Það nýtist fyrir dreifingu, t.d. ef íslensk fyrirtæki vilja byggja upp lager erlendis og dreifa vörunum áfram þaðan.“
Félagið er nýbúið að skipta um nafn en það hét áður Cargow Thorship. Spurður út í nafnabreytinguna segir Stefán að ákveðið hafi verið að taka h-ið út úr Thor og w-ið út úr Cargow. „Við erum að einfalda vörumerkið og skilaboðin. Þrumuguðinn Þór heitir Tor á norsku og sænsku, félagið er með sterkar norrænar rætur og við byggjum áfram á því og okkar góðu sögu. W-ið í Cargow var tilvísun í upphaflega siglingaleið Cargow. Nú er hún orðin fjölbreyttari.“
Spurður að lokum um reksturinn á síðasta ári segir Stefán hann hafa gengið vel. „Velta samstæðunnar var tæpir 11 milljarðar króna og afkoma var jákvæð eins og undanfarin ár.“