Hlutabréfaverð í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu Sýn hefur lækkað um 17,69% í 42 milljóna viðskiptum það sem af er degi þegar þetta er ritað.
Félagið sendi frá sér afkomuviðvörun sl. föstudag og tilkynnti að gert yrði ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins fyrir árið 2024 verði í kringum 700 milljónir króna sem er undir áður útgefnu spámarki félagsins, sem og rauntölum úr rekstri miðað við afkomu fjórða ársfjórðungs og ársins 2023.
Uppfærð spá gerði ráð fyrir að EBIT lægi nær neðri mörkum bilsins 900–1.100 milljónum króna. Helstu ástæður fráviksins eru auglýsingatekjur, áskriftartekjur af sjónvarsmiðlum, eignfærslur launakostnaðar og brunatjón.
Fram kom í tilkynningunni á föstudaginn að félagið muni þurfa að endurskoða áður útgefin viðmið um EBIT fyrir árið 2025 til lækkunar til að bregðast við ofangreindum frávikum. Horfur félagsins fyrir 2025 verða birtar samhliða endanlegu ársuppgjöri þann 20. febrúar nk. Ársuppgjör félagsins er enn í vinnslu og getur tekið breytingum fram að birtingu.