Um helgina tilkynnti Sýn að mikil frávik væru í rekstri félagsins frá áætlunum. Sendi félagið því frá sér afkomuviðvörun. Þar kemur fram að rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins fyrir árið 2024 verði um 700 m.kr. Það er töluvert undir áður útgefnum markmiðum félagsins sem þó voru ítrekuð í nóvember. Í tilefni uppgjörs fyrir þriðja ársfjórðung var gert ráð fyrir að EBIT yrði nærri neðri mörkum á því bili sem áður var kynnt, eða um 900-1.100 m.kr. Frávikið nú nemur því um 22% frá neðri mörkum.
Fyrirtækið rekur í tilkynningu sinni nokkur atriði sem helst hafa þessi neikvæðu áhrif, eins og auglýsingatekjur, sem eru talsvert undir áætlunum, eða sem nemur um 258 m.kr. Einungis á síðasta fjórðungi síðasta árs voru þessar tekjur 157 m.kr. frá áætlunum. Áskriftartekjur eru um 106 m.kr. undir markmiðum.
Það sem vekur jafnframt athygli í tilkynningu félagsins er eldsvoði sem félagið lenti í 27. júní á síðasta ári. Nú er tilkynnt að tjónið sé metið á um 600 m.kr. en að einungis 207 m.kr. séu bættar frá tryggingum. Tjón félagsins er því um 400 m.kr. Í tilkynningu kemur fram að umfang tjónsins hafi legið fyrir 27. júlí.
Samkvæmt markaðsaðilum sem Morgunblaðið hefur rætt við hefði verið að þeirra mati heppilegra, miðað við þetta mikla tjón, að félagið hefði sent frá sér tilkynningu þegar það lá fyrir. Breytir engu að það sé ekki fyrr en 15. janúar sem endanlega samþykkt bótaupphæð hafi legið fyrir. Samkvæmt fulltrúum Sýnar sem Morgunblaðið var í samskiptum við eru bein rekstraráhrif tjónsins á árinu 2024 ekki veruleg en ljóst að tjónið hafi haft áhrif á fjárfestingar síðasta árs og muni gera það áfram í ár.
Samkvæmt fulltrúum Sýnar þá stendur ekki til að selja einingar út úr rekstrinum.
Í lok tilkynningar kemur fram að endurskoða þurfi áður útgefin viðmið fyrir EBIT á árinu 2025 til lækkunar. Horfur félagsins verða birtar samhliða endanlegu ársuppgjöri 20. febrúar.
Miklar lækkanir voru á bréfum félagsins á markaði í gær en þó ekki í miklum viðskiptum. Ef litið er til síðasta árs hafa bréf félagsins lækkað um tæp 50%. mj@mbl.is