Agnar Tómas Möller Fjárfestir og sagnfræðinemi
Í nýlegum pistli á fréttaveitunni „The Free Press“ benti sagnfræðingurinn Niall Ferguson á viss líkindi með seinni forsetatíð Donalds Trumps og forvera hans Richards Nixons sem mætti kalla „hefnd Nixons“. Trump hefur opinberlega dáðst að Nixon og það sem sameinar þá helst að mati Fergusons sé „pólitískur realismi“, þar sem tilgangurinn, meint velgengni Bandaríkjanna, helgi meðalið. Öfugt við Nixon sem kom á hlýlegum samskiptum við Kína, m.a. til að reka dýpri fleyg í samskipti kommúnistaríkjanna, virðist Trump vilja koma sér mjúkinn hjá Pútín, meðal annars til að draga hann úr faðmi Kína. Þannig hefur Ferguson kallað Trump „öndverðan“ (e. reverse) Nixon að því leyti.
Þrátt fyrir ólíkar kringumstæður eiga Nixon og Trump það sameiginlegt að hafa viljað veikari dollar. Nixon afnam gullfót dollarsins en Trump og efnahagsráðgjafar hans vilja lækka langtímavexti og um leið virði dollarsins, til að efla innlenda iðnaðarframleiðslu. Tollastríð forsetans leikur stórt hlutverk í þeirri ætlun sem hefur verið nefnd „Mar-a-Lago-samkomulagið“ og byggist í sinni einföldustu mynd á því að minnka fjárlaga- og viðskiptahalla í samanburði við önnur ríki og draga úr samneyslu, einkum fyrir tilstilli „deildar skilvirks opinbers reksturs“, eða „DOGE“ (áætlunin er útskýrð vel af efnahagsgreinandanum Jim Bianco í hlaðvarpinu „Odd Lots“, en er annars eignuð Stephen Miran efnahagsráðgjafa Trumps).
Þannig sé hinn gríðarlegi fjárlagahalli Bandaríkjanna, yfir 6% árið 2024, og skuldir um 125% af landsframleiðslu, aðalástæða hárra langtímavaxta í Bandaríkjunum og styrks dollarsins og undirrót „vandans“ hlutfallslega mun hærri útgjöld til hernaðarmála í Bandaríkjunum. Þótt hegðun Bandaríkjastjórnar beri merki um trú á að heimsveldið standi í fullum blóma, eru dökk ský á lofti þar sem vaxtagreiðslur af skuldum bandaríska ríkisins skyggðu í fyrsta skipti á útgjöld hernaðarmála á liðnu ári. Samkvæmt lögmáli kenndu við skoska 18. aldar heimspekinginn Adam Ferguson hefur það verið sterkur fyrirboði um fall heimsvelda, nú seinast hins breska á miðri 20. öld. Ástæðu stórkarlalegrar utanríkisstefnu Trumps megi að hluta rekja til meðvitundar um eigin veikleika, líkt og Nixon vissi að Víetnamstríðið var tapað við byrjun 8. áratugarins hafa Bandaríkin í dag ekki bolmagn til að eiga við Kína, Rússland og Norður-Kóreu á sama tíma.
En ólíkt Nixon er Trump viðskiptastríðsforseti, en ekki stríðsforseti, og má segja að í kjölfar húðstrýkingar Úkraínuforseta í Hvíta húsinu hafi fyrsti leikurinn í efnahagsáætluninni verið leikinn með fyrirheitum Evrópuríkja um íturvaxna sjóði til eflingar hervörnum og afléttingar skuldaþaka. Fylgdi mesta hækkun langtímavaxta í Evrópu frá falli Berlínarmúrsins og munurinn við Bandaríkin hefur minnkað um u.þ.b. 0,75% á einum mánuði og gengi dollarsins fallið um 4%. Telja fjárfestar í auknum mæli að tollastríð og niðurskurður ríkisútgjalda gæti leitt bandaríska hagkerfið í kreppu og hefur Trump sagt það óhjákvæmilegan en tímabundinn fylgifisk efnahagsstefnu sinnar.
Í þessu brimróti má líta til Íslands nú þegar skuldahlutföll margra stærstu vestrænna ríkja eru í sögulegu hámarki og lágvaxtatímabilið liðið undir lok. Lánshæfismat Íslands hefur farið stígandi, brúttó skuldir verulega undir meðaltali OECD (77% vs. 120%) en engu að síður eru tíu ára vextir nú um 7%, 3-4% yfir Evrópu og Bandaríkjunum, sem er hærra en tilefni er til. Nú þegar markaðir gefa sterk merki um að vaxandi skuldabyrði og hallarekstur hins opinbera leiði til hærri markaðsvaxta er tækifæri fyrir íslenska ríkið að senda skilaboð og grípa til aðgerða sem gætu minnkað skuldir og vaxandi vaxtabyrði ríkissjóðs – líklega mest aðkallandi hagsmunamál þjóðarbúsins. Þótt Nixon gangi aftur ætti Ísland ekki endilega að skelfast það.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út í gær.