Vörumerkjastofan Brandr veitti á dögunum viðurkenningar fyrir bestu vörumerki Færeyja, líkt og stofan hefur gert hér á landi síðastliðin ár.
Á einstaklingsmarkaði vann Smyril Line, fyrirtæki sem er vel þekkt á Íslandi fyrir ferjusiglingar til Seyðisfjarðar. Á fyrirtækjamarkaði vann laxeldisfyrirtækið Bakkafrost.
Viðburðurinn heppnaðist vel. 160 manns mættu, þar á meðal allir helstu forkólfar færeysks atvinnulífs. Opnunarræðu flutti Högni Höydal, utanríkis- og atvinnumálaráðherra Færeyja, og fjallaði hann þar um mikilvægi viðburðarins fyrir færeyskt atvinnulíf.
Friðrik Larsen, stofnandi og eigandi Brandr, segir í samtali við Morgunblaðið að viðburðurinn sé sá fyrsti sem Brandr heldur utan Íslands og bætti við að Færeyjar séu vonandi aðeins fyrsta landið af mörgum þar sem þessir viðburðir verði haldnir. „Þetta gekk mjög vel og í raun er magnað hvað boltinn fór fljótt að rúlla í Færeyjum. Við stofnuðum útibú í landinu í maí í fyrra,“ útskýrir Friðrik.
Hann segir ánægjulegt hvað hin staðlaða aðferðafræði Brandr við valið, sem sé búin að þroskast síðustu ár á Íslandi, hafi virkað vel í Færeyjum. „Það var gaman að sjá það sérstaklega af því að við þekktum markaðinn ekki neitt fyrirfram að heitið geti.“
Friðrik segir að það sé mikilvægt að læra af markaði eins og Færeyjum sem sé minni en Ísland. „Það mun nýtast okkur vel í sókn á næstu markaði sem eru Írland, Pólland og Eystrasaltslöndin. Að auki er stefnt á stærri markaði á komandi árum. Verðlaunin eru ein besta aðferð okkar til að afla frekari viðskipta í löndunum.“
Friðrik segir að næsti viðkomustaður Brandr-verðlaunanna verði Írland, líklega árið 2027. Markmiðið er svo að hafa viðburðina í löndunum árlega, rétt eins og verið hefur á Íslandi.