Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars en ársverðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Þetta kemur fram í greiningu bankans, Hagsjá sem bankinn gaf út í dag.
Í greiningunni er gert ráð fyrir að janúarútsölur á fötum og skóm klárist í mars og að sá liður hafi mest áhrif á hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Gert er ráð fyrir að reiknuð húsaleiga þróist með svipuðum hætti og síðustu mánuði og bankinn spáir 0,5% hækkun í mars. Í mars í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga mikið eða um 2,1% og gangi spá bankans eftir nú hefur sá liður mest áhrif til lækkunar á ársverðbólgu.
Í greiningunni er búist við að verðbólga verði stöðug í kringum 4% næstu mánuði. Þar er sérstaklega tilgreint að komið sé að kaflaskilum í baráttunni við verðbólguna og að það hægi á hjöðnun hennar.
Bankinn spáir spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% í mars, 0,74% í apríl, 0,32% í maí og 0,49% í júní. Gangi spáin eftir verður verðbólga nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði.