Hvenær er rétti tíminn til að fara í frumútboð?

Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland.
Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland. María Matthíasdóttir

Bald­ur Thorlacius, fram­kvæmda­stjóri skrán­inga hjá Nas­daq Ice­land skrif­ar:

Við í Kaup­höll­inni fáum oft spurn­ing­ar um það hvers kon­ar fyr­ir­tæki eigi er­indi á markað og hvenær rétti tím­inn sé til að fara í frumút­boð. Skrán­ing á markað get­ur stutt við fjár­mögn­un fyr­ir­tækja, aukið sýni­leika þeirra og hjálpað þeim að vaxa.

Aðstæður á markaði

Nas­daq hef­ur lagst í ít­ar­leg­ar grein­ing­ar á því við hvaða aðstæður lík­leg­ast er að fyr­ir­tæki fari í frumút­boð. Afrakst­ur­inn má m.a. sjá í frumút­boðsvísi­töl­um, Nas­daq IPO Pul­se index, sem hafa verið gefn­ar út bæði fyr­ir Banda­rík­in og Svíþjóð. Vísi­töl­un­um er ætlað að end­ur­spegla hversu mót­tæki­leg­ur markaður­inn er fyr­ir frumút­boðum hverju sinni. Eft­ir­far­andi eru þau atriði sem tal­in eru gefa vís­bend­ing­ar um mögu­lega fjölg­un frumút­boða (helstu áhrifaþætt­ir banda­rísku vísi­töl­unn­ar):

Vaxta­breyt­ing­ar. Eru vext­ir að hækka eða lækka? Lækk­andi vext­ir hald­ast oft í hend­ur við aukið flæði inn á hluta­bréfa­markað, sem get­ur skilað sér í meiri eft­ir­spurn í frumút­boðum.

Sveifl­ur á markaði. Árs­breyt­ing­ar á VIX-vísi­töl­unni, sem mæl­ir vænt flökt á hluta­bréfa­mörkuðum. Fjár­fest­um er illa við óvissu og stöðug­leiki ein­fald­ar áætlana­gerð.

Ávöxt­un. Árs­breyt­ing­ar á helstu hluta­bréfa­vísi­töl­um. Fyr­ir­tæki vilja frek­ar fara í frumút­boð þegar hluta­bréfa­verð er á upp­leið.

Verðmöt. Há verðlagn­ing eyk­ur lík­urn­ar á frumút­boðum, enda væn­legra fyr­ir eig­end­ur að selja eða sækja nýtt fjár­magn við þær aðstæður.

Stemn­ing­in á mörkuðum. Kann­an­ir á vænt­ing­um fjár­festa um hækk­an­ir/​lækk­an­ir hluta­bréfa­verðs á kom­andi ári. Meiri stemn­ing, fleiri frumút­boð.

Sænska vísi­tal­an er svipuð, en í stað vaxta­breyt­inga og stemn­ing­ar á hluta­bréfa­mörkuðum er horft til vænt­inga stjórn­enda og neyt­enda um þróun hag­kerf­is­ins á kom­andi ári. Vísi­töl­ur beggja vegna hafs­ins benda til þess að vænta megi fleiri frumút­boða á kom­andi miss­er­um og áfram eru góðar horf­ur þrátt fyr­ir óvissu í Banda­ríkj­un­um.

Ekki er til sams kon­ar vísi­tala fyr­ir ís­lenska markaðinn. En gróf­lega metið út frá helstu áhrifaþátt­um og sam­töl­um við markaðsaðila má lík­lega segja að aðstæður hér á landi séu nokkuð góðar.

Fyr­ir­tæk­in sjálf

Svo er það staða fyr­ir­tækj­anna sjálfra. Öflug fyr­ir­tæki geta farið í vel heppnað frumút­boð við lak­ar markaðsaðstæður og öf­ugt. Tíðarand­inn get­ur að sama skapi stjórnað því hvers kon­ar fyr­ir­tæki eru vin­sæl­ust hverju sinni. Nú orðið er al­mennt mik­il áhersla á gæði og fjár­hags­leg­an stöðug­leika í bland við ný­sköp­un. Oft er talað um ör­ugg­an vöxt (e. safe growth) í þessu sam­hengi: góðan rekst­ur, sterkt viðskiptalík­an, öfl­uga stjórn­end­ur og skil­virka ferla. Á banda­ríska markaðnum eru fyr­ir­tæki í gervi­greind áber­andi og þau sem eru ekki í þeim bransa kepp­ast um að segja frá því hvernig þau eru sjálf að nýta gervi­greind. Á Norður­lönd­un­um eru það frek­ar fyr­ir­tæki í fjár­magns­frekri starf­semi sem hafa sótt á markað, eins og orku­fyr­ir­tæki og fast­eigna­fé­lög. Stærð fyr­ir­tækj­anna skipt­ir minna máli en flest­ir halda. Um helm­ing­ur fyr­ir­tækja á First North-vaxt­ar­markaðnum á Norður­lönd­um (alls 476 tals­ins) var um eða und­ir tveim­ur og hálf­um millj­arði kr. að markaðsvirði í lok fe­brú­ar 2025 og mörg þeirra með ör­fáa starfs­menn. Hjá slík­um fyr­ir­tækj­um skipta gæðin og vaxt­ar­horf­urn­ar meira máli.

Hver er þá niðurstaðan?

Það er að ýmsu að huga þegar taka á ákvörðun um hvort og hvenær henti að fara í frumút­boð. Við erum alltaf til í sam­tal um slík mál og það get­ur einnig verið gagn­legt að eiga sam­töl við ráðgjafa. Þá er ein besta leiðin til að kom­ast að svar­inu að eiga í góðum sam­skipt­um við fjár­festa. Koma sér á fram­færi og fá um leið til­finn­ingu fyr­ir eft­ir­spurn­inni. Góð fjár­festa­tengsl munu að sama skapi auka lík­urn­ar á því að frumút­boð heppn­ist vel.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK