Umsvif íslenska verslunartæknifyrirtækisins Smartgo hafa vaxið jafnt og þétt en á þessu ári standa vonir til að sprenging verði í notkun þeirra fyrirtækja sem nota kerfið sem Smartgo hefur þróað.
Sérstaða Smartgo felst í því að hafa smíðað sölukerfi sem sniðið er að þörfum svokallaðra hringrásarverslana og umboðssöluverslana. Á undanförnum árum hefur fjöldi hringrásarverslana sprottið upp á Íslandi og virka þær alla jafna þannig að einstaklingur sem vill selja notaða muni tekur pláss í verslun á leigu og fær að stilla vörum sínum þar upp í tiltekinn tíma, en starfsmaður verslunarinnar annast afgreiðslu og þjónustu við viðskiptavini.
Umboðssöluverslanir virka með svipuðum hætti nema þar fær framleiðandi eða heildsali úthlutað hillupláss í verslun fyrir nýjar vörur, án tímamarka, og er þetta verslunarform t.d. vinsælt hjá íslenskum ferðamannabúðum.
Sturla Þórhallsson er framkvæmdastjóri Smartgo og var síðast í viðtali hjá Morgunblaðinu sumarið 2022 en þá höfðu vörur fyrir 230 milljónir króna verið seldar í gegnum kerfi fyrirtækisins yfir 18 mánaða tímabil. Síðan þá hefur veltan margfaldast og á síðasta ári hélt hugbúnaður Smartgo utan um viðskipti upp á 900 milljónir króna á innanlandsmarkaði og er útrás til Svíþjóðar komin vel af stað.
„Hringrásarverslanir og búðir sem stunda umboðssölu hafa vitaskuld tíðkast í nágrannalöndum okkar í langan tíma en þegar við fórum af stað með þetta verkefni komumst við fljótlega að því að tölvukerfin fyrir svona rekstur höfðu ekki tekið neinni framþróun í langan tíma,“ útskýrir Sturla en kerfið sem Smartgo smíðaði á að vera einkar notendavænt og einfalda bæði verslunareiganda og seljanda vörunnar lífið. Kerfið heldur m.a. utan um pantanir á verslunarrými og leiðir seljandann í gegnum það ferli að skrá inn vöruna, verðsetja og prenta út strikamerki. Þá er kerfið tengt við greiðslugátt og bókhaldskerfi, og getur líka tengst netverslunarviðmóti.
Ellefu íslenskar verslanir nota hugbúnað Smartgo og bætast bráðum fimm nýjar búðir við, þar á meðal verslun með notuð húsgögn og verslun sérhæfð í sölu á listaverkum, fornbókum og safngripum.
Sænsk hringrásarverslun var að taka hugbúnaðinn í sína þjónustu og hefur allt gengið þar að óskum. Segir Sturla að sennilega styttist í að íslenski hringrásarverslanamarkaðurinn mettist enda megi núna finna töluverða flóru slíkra verslana í landinu, og því ekki eftir neinu að bíða að hefja útrás af krafti. „Á sænska markaðinum, og annars staðar á Norðurlöndunum, sjáum við gríðarleg tækifæri fyrir svona kerfi og okkar mat að hugbúnaður Smartgo haki við mun fleiri box en þær lausnir sem við keppum við. Þá sjáum við líka mikinn vöxt í áhuga á kaupum og sölu á notuðum varningi á Norðurlöndunum, og ekki síst þegar kemur að lúxusvörum.“
Markaðsrannsóknafyrirtæki lagðist yfir tölurnar fyrir Sturlu og fékk það út að í Evrópu og Bandaríkjunum megi reikna með að markaðurinn fyrir notaðar vörur muni vaxa árlega um 12-17% næsta áratuginn og því ljóst að þessi geiri á heilmikið inni.
„Við höfum núna búið þannig um hnútana að aðilar sem vilja nota kerfið okkar geta farið hratt af stað. Hér áður fyrr gat það verið nokkurra daga verk að setja sölukerfið upp en núna getur nýr viðskiptavinur haft samband við okkur í byrjun dags og kerfið verið komið í gang eftir hádegismat. Þetta bætta aðgengi er að baki vaxtarspá fyrirtækisins fyrir næstu 12 mánuðina en á því tímabili reiknum við með að fá á bilinu 50 til 60 nýjar verslanir inn í kerfið.“
Sturla segir ekkert lát virðast ætla að verða á vinsældum hringrásarverslana enda fylgi þeim ávinningur af ýmsum toga. Bendir hann á að með því að gefa t.d. tískuflíkum eða barnafatnaði framhaldslíf sé verið að draga úr umhverfisáhrifum tískugeirans og einnig hjálpa fólki að spara. „Það getur verið breytilegt eftir því hvers konar vara á í hlut en það er algengt að fólk kaupi t.d. notaðar tískuflíkur á verði sem er 25-30% af því sem flíkin kostaði ný. Finna má nokkrar merkilegar undantekningar á þessu og virðast t.d. úlpur frá 66°Norður halda verði sínu furðuvel,“ segir Sturla og bætir við að Smartgo muni senn bjóða upp á þann möguleika að láta gervigreind veita seljendum ráðgjöf um hvaða verð er sniðugast að setja á hverja vöru. Er þá varan mynduð, efni myndarinnar greint og borið saman við verð á sömu vöru annars staðar. „Þetta ætti að leiða til þess að seljendur fái betra verð fyrir vörurnar en séu líka ekki að verðleggja sig svo hátt að þeim takist ekki að finna kaupendur.“
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn 24. mars.