Rekstrarafkoma samstæðu Isavia fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á árinu 2024 var jákvæð um 10,7 milljarð króna. Fyrir ári skilaði félagið 8,1 milljarði króna.
Heildarafkoma ársins var jákvæð um 5,2 milljarð króna samanborið við 2,1 milljarð króna árið 2023.
Samkvæmt tilkynningu frá Isavia voru farþegar um Keflavíkurflugvöll rúmlega 8,3 milljónir á árinu samanborið við um 7,8 milljónir árið 2023.
Í tilkynningu er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia:
„Eldsumbrot í lok árs 2023 höfðu neikvæð áhrif á fjölda farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári sem gerði það að verkum að við náðum ekki tekjumarkmiðum okkar. Því til viðbótar fengum við hlutfallslega fleiri tengifarþega en við gerðum ráð fyrir sem hafði á sama tíma neikvæð áhrif á tekjur Keflavíkurflugvallar. Aftur á móti tökum við fagnandi á móti tengifarþegunum okkar þar sem þau styrkja tengistöðina á Keflavíkurflugvelli til framtíðar.“
Jafnframt kemur fram að liðið ár hafi verið stærsta fjárfestingaár frá stofnun félagsins, eða um 18,0 milljarðar og þar af um 16,9 milljarðar vegna Keflavíkurflugvallar. Félagið gerir ráð fyrir hóflegri fjölgun farþega á árinu eða um 0.8% og að sú fjölgun verði drifin áfram af komufarþegum til Ísland.