Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, gerði uppbyggingu á íslenskum varnariðnaði að umfjöllunarefni í aðsendri grein sem bar yfirskriftina „Öflugur varnariðnaður á Íslandi“ og birtist í Morgunblaðinu á dögunum.
Bjarni telur að með markvissri stefnu og fjárfestingu gæti Ísland orðið virkari þátttakandi í varnartækni og jafnframt aukið getu sína til að bregðast við öryggisógnum og skapað efnahagslegt verðmæti fyrir íslenskt samfélag.
Bjarni álítur aðspurður að fyrsta skrefið í uppbyggingu á öflugum varnariðnaði hér á landi væri að skilgreina hvaða íslensk fyrirtæki falli undir innlendan varnariðnað. „Eins og staðan er í dag þá falla varnarmál ekki undir neinn flokk innan atvinnulífsins hér landi,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið.
Hann bendir á að íslensk fyrirtæki stundi nú þegar viðskipti við aðila sem tengjast varnarmálum.
„Til dæmis má nefna lækningavörufyrirtækið Kerecis, en stærsti kúnni þeirra hefur verið bandaríska varnarmálaráðuneytið. Svo hafa herir keypt stoðtæki af Össuri. Íslensk fyrirtæki hafa einnig náð góðum árangri á sviði þróunar ómannaðra loftfara (dróna). Að mínu mati gæti sá geiri vaxið hratt með markvissri fjárfestingu bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi,“ útskýrir Bjarni.
Bjarni segir þessi mál verða rædd í dag á ráðstefnu sem Íslandsstofa, utanríkisráðuneytið og Samtök iðnaðarins standa fyrir um tækni sem hafi tvíþætt notagildi í öryggis- og varnarmálum.