Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Það var glatt á hjalla í Hvíta húsinu í lok síðustu viku og húsið fullt af grunnskólanemendum. Tilefnið var nýjasta forsetatilskipun Donalds Trumps sem miðar að því að leggja menntamálaráðuneytið niður, eða því sem næst.
Reyndar er ekki hægt að leggja ráðuneytið niður að fullu nema með lagabreytingu og það sama gildir um veigamestu verkefni ráðuneytisins, að þau eru öll meira eða minna bundin í lög. Það vakir heldur ekki fyrir Trump að t.d. leggja niður bandaríska námslánakerfið, hætta að styrkja efnalitla námsmenn eða skrúfa fyrir fjárframlög til nemenda með fötlun og aðrar sérþarfir; þau verkefni má einfaldlega færa yfir á önnur ráðuneyti og ágætis hagræðing er að því að losna við heilt stjórnsýsluapparat með nokkur þúsund starfsmenn.
Aðalhvatinn hjá Trump er þó ekki að hagræða í ríkisrekstrinum. Vissulega gerir margt smátt eitt stórt, en sparnaðurinn sem hlýst af því að loka þessu eina ráðuneyti mun ekki hafa nein úrslitaáhrif fyrir ríkissjóð. Meginástæðan fyrir því að Trump er með menntamálaráðuneytið í sigtinu er að störf ráðuneytisins hafa í auknum mæli litast af pólitískri réttsýni og hugmyndafræðilegum öfgum. Það fjármagn sem ráðuneytið útdeilir til bandarískra menntastofnana myndar ekki nema lítið brot af tekjum þeirra (sveitarfélögin sjálf og ríkin hvert fyrir sig standa straum af 92% af kostnaði bandaríska skólakerfisins) en þessi smái fjárhagslegi skerfur hefur samt dugað til að veita ráðuneytinu vald til að beita bandarískar menntastofnanir miklum þrýstingi, bæði beint og óbeint.
Það var t.d. menntamálaráðuneytið sem tók upp á því að túlka lög sem banna mismunun á þann veg að skólar áttu ekki annarra kosta völ en að t.d. veita trans-stúlkum óheftan aðgang að íþróttastarfi stúlkna, salernum þeirra og búningsklefum.
Með því að veikla ráðuneytið, og vonandi leggja það niður, er einfaldlega verið að minnka afskipti alríkisins af málaflokknum og auka sjálfstæði ríkjanna og sveitarstjórnarstigsins. Með öðrum orðum: verið er að færa málaflokkinn einu skrefi nær almenningi.
Nýr menntamálaráðherra Trumps, Linda McMahon, er þegar komin nokkuð vel á veg með að leggja ráðuneytið niður en áður en Trump undirritaði nýju tilskipunina hafði hún afrekað það að fækka starfsliði ráðuneytisins um helming.
Eins og með öll önnur stefnumál Trumps hafa margir brugðist illa við þessu nýjasta útspili, og alls kyns hagsmunaaðilar hafa þegar höfðað mál til að reyna að fá ákvörðun Trumps hnekkt. Í fljótu bragði er ekki að sjá að málareksturinn geti haldið vatni, og merkilegt að þeir sem eru óánægðastir með framtakið virðast hafa litlar áhyggjur af hagsmunum nemenda en hafa þeim mun meiri áhyggjur af að vegið sé að hagsmunum bandarískrar kennara- og embættismannastéttar. Það segir kannski sína sögu.
Skoðanakannanir sýna að um það bil helmingur Bandaríkjamanna sér menntamálaráðuneytið í neikvæðu ljósi og sker ráðuneytið sig úr að því leyti. Tilskipun Trumps mun beina kastljósinu að vinnubrögðum ráðuneytisins og verður það örugglega til þess að vinsældir stofnunarinnar minnka enn frekar, og því líklegra en ekki að frumvarp um að loka ráðuneytinu mæti ekki mikilli andstöðu á þinginu.
Bandaríska menntamálaráðuneytið var sett á laggirnar seint í forsetatíð Jimmy Carters heitins en fram að því heyrðu skólamál undir sameiginlegt ráðuneyti heilbrigðis-, velferðar- og menntamála. Í skiptum fyrir að búa til sérstakt ráðuneyti í kringum málaflokkinn fékk Carter stuðning bandaríska kennarasambandsins í kosningunum 1980, sem hann tapaði gegn Ronald Reagan.
Síðan þá hefur málaflokkurinn sogað til sín fjármagn og hafa útgjöld á hvern nemanda margfaldast hvort sem leiðrétt er fyrir verðbólgu eður ei. Fjárausturinn hefur ekki skilað miklu og er frammistaða bandarískra grunnskólanemenda ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Heilt á litið hefur geta bandarískra nemenda í stærðfræði skánað ögn síðan á 8. áratugnum og lestrarkunnátta þeirra batnað örlítið. Hápunkti var náð um miðjan síðasta áratug en síðan þá hefur námsárangri bandarískra grunnskólakrakka hrakað jafnt og þétt.
Í dag er staðan sú að einn af hverjum fjórum bandarískum nemendum í kringum 14 ára aldurinn hefur ekki grunnþekkingu í stærðfræði og þriðji hver er undir lágmarksviðmiðum í lestri. Í síðustu PISA-rannsókn lentu Bandaríkin í 34. sæti í stærðfræði, 16. sæti í vísindum og 9. sæti í lestri.
Í Bandaríkjunum þykir þessi frammistaða svo afleit að jaðrar við neyðarástand en í sömu PISA-rannsókn lentu íslenskir nemendur í 37., 40. og 42. sæti og hefur línan legið niður á við allt síðan Ísland tók fyrst þátt í mælingunni. Á ég bágt með að skilja hvers vegna íslenskir foreldrar standa ekki fyrir vikulegum mótmælum á Austurvelli, eða hvers vegna enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur gert það að sínu helsta baráttumáli að ráðast í róttækar breytingar á íslenska skólakerfinu.
Fengi ég að ráða myndi ég segja upp nýgerðum kjarasamningi við Kennarasamband Íslands og breyta samningsforsendunum þannig að kjör kennara hækki (eða lækki) í hlutfalli við batnandi eða versnandi frammistöðu íslenska meðalnemandans í samræmdum prófum og PISA-mælingum.
Lesendur geta rétt ímyndað sér hvers konar hvata það myndi skapa hjá íslenskri kennarastétt að árangurstengja launin með þessum hætti.
Með svona árangurstengingu myndu kennararnir krefjast þess að fá meira sjálfstæði í störfum sínum og þeir myndu sjálfir kalla eftir því að raða nemendum í bekki eftir getu. Enda vita það allir hvað bráðgeru börnunum – sem hífa upp einkunnameðaltalið fyrir árganginn – er gerður mikill óleikur með því að vera sett í bekk með alls konar krökkum þar sem hraði kennslunnar þarf að taka mið af þeim nemanda sem á erfiðast með námið. Sumir kennararnir myndu ólmir sérhæfa sig í að draga fram það besta hjá bráðgeru börnunum og aðrir myndu helga sig því krefjandi verkefni að leiða fjölþjóðlega bekki fulla af börnum innflytjenda sem þurfa meiri stuðning á meðan þau ná tökum á íslenskunni.
Lélegum kennurum yrði ekki lengur vært á sínum vinnustað og aginn í skólastarfinu yrði allt annar. Þjóðin öll myndi svo fagna því að sjá einkunnir barnanna rjúka upp, og almenn ánægja ríkja með að greiða íslenskum kennurum fyllilega verðskulduð ofurlaun.
Mikið er það skrítið að ekki skuli vera líflegri umræða um hvernig mætti bæta íslenskt skólastarf. Auðvitað hefði, fyrir löngu, átt að bjóða til landsins sérfræðingum frá Singapúr, Japan, Taívan og Suður-Kóreu og biðja þá að útskýra í beinni útsendingu á öllum rásum hvers vegna nemendurnir þar standa sig svona miklu betur en þeir íslensku. Gruni lesendur að vinnuharkan sé kannski of mikil hjá skólunum í Asíu þá mætti í staðinn hóa í sérfræðinga frá Kanada og Eistlandi sem eru nær Íslandi í menningu og siðum en lentu mjög ofarlega í síðustu PISA-könnun.
Mig grunar að góðan árangur Eistlands og Kanada megi skrifa á að þar hefur verið ýtt undir dreifstýringu skólakerfisins. Í Eistlandi sjá sveitarfélögin um að reka skólana og hafa mikið sjálfstæði þegar kemur að skipulagi skólastarfsins. Ríkið greiðir tiltekna upphæð með hverjum nemanda og sama fjármagn stendur einkareknum skólum til boða, og benda heimildir til að í kringum 10% eistneskra grunnskólanemenda gangi í einkaskóla. Allt býr þetta til ákveðinn sveigjanleika, gott aðhald og hæfilega samkeppni í skólakerfinu.
Í Kanada er ekkert menntamálaráðuneyti að finna og eru skólamálin á könnu hvers fylkis fyrir sig. Sum fylkin taka þátt í að fjármagna einkarekna skóla að hluta, en önnur gera það ekki. Heilt á litið virðast nemendur við einkaskólana standa sig betur, en kerfið býr líka til samkeppni á landsvísu á milli fylkjanna, enda vill ekkert fylki verða þekkt fyrir það að vera með lélegasta skólakerfi Kanada.
Það kenndi ýmissa grasa á þingi Samtaka iðnaðarins fyrr í þessum mánuði og var þar m.a. rætt um hvort Ísland væri reiðubúið fyrir gervigreindarbyltinguna. Þar áætlaði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, að Ísland þyrfti á 9.000 nýjum tæknisérfræðingum að halda á næstu fimm árum til að dragast ekki aftur úr í gervigreindarkapphlaupinu.
Sigurður hefur eflaust á réttu að standa, en ég held að brýnast af öllu sé að tryggja að þegar íslensk börn og ungmenni útskrifast úr grunn- og framhaldsskóla hafi þau fengið góða undirstöðumenntun svo að gervigreindin nýtist þeim sem skyldi.
Að nota gervigreind snýst nefnilega ekki um að hafa mikla tæknimenntun og kunna að skrifa tölvukóða, heldur kallar miklu frekar á að geta hugsað skýrt og hafa ágætis vit í kollinum. The Economist gerði þessu skil í nýlegri samantekt þar sem bent var á að þessi nýja tækni nýtist þeim best sem eru snjallir og fróðir fyrir en ávinningurinn miklu minni fyrir þá sem eru í besta falli í meðallagi færir á sínu sviði. Á þetta jafnt við um fjárfesta á Wall Street og verslunarmenn í Kenía, enda hægt að fá svo mikið meira út úr gervigreindinni ef hún er notuð af manneskju með gott innsæi og djúpa þekkingu á sínu sviði.
Í gervigreindarhagkerfinu mun það skilja á milli feigs og ófeigs að geta hugsað rökrétt en líka vera frjór og skapandi. Tæknin kallar á það að hafa góðan skilning á aðferðafræði til að geta lagt flókin verkefni og spurningar rétt upp fyrir gervigreindina, en fólk mun líka þurfa að hafa nægilega víða og djúpa þekkingu til að koma auga á það þegar gervigreindin ruglast í ríminu.
Gervigreind bætir sumsé ekki upp greindarskort, nema síður sé.
Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum 26. mars.