Hvernig gerum við börnin klár?

Trump fékk hóp nemenda til að hjálpa sér við að …
Trump fékk hóp nemenda til að hjálpa sér við að undirrita tilskipunina. AFP/Mandel Ngan

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Það var glatt á hjalla í Hvíta hús­inu í lok síðustu viku og húsið fullt af grunn­skóla­nem­end­um. Til­efnið var nýj­asta for­seta­til­skip­un Don­alds Trumps sem miðar að því að leggja mennta­málaráðuneytið niður, eða því sem næst.

Reynd­ar er ekki hægt að leggja ráðuneytið niður að fullu nema með laga­breyt­ingu og það sama gild­ir um veiga­mestu verk­efni ráðuneyt­is­ins, að þau eru öll meira eða minna bund­in í lög. Það vak­ir held­ur ekki fyr­ir Trump að t.d. leggja niður banda­ríska náms­lána­kerfið, hætta að styrkja efna­litla náms­menn eða skrúfa fyr­ir fjár­fram­lög til nem­enda með fötl­un og aðrar sérþarf­ir; þau verk­efni má ein­fald­lega færa yfir á önn­ur ráðuneyti og ágæt­is hagræðing er að því að losna við heilt stjórn­sýsluapparat með nokk­ur þúsund starfs­menn.

Aðal­hvat­inn hjá Trump er þó ekki að hagræða í rík­is­rekstr­in­um. Vissu­lega ger­ir margt smátt eitt stórt, en sparnaður­inn sem hlýst af því að loka þessu eina ráðuneyti mun ekki hafa nein úr­slita­áhrif fyr­ir rík­is­sjóð. Megin­á­stæðan fyr­ir því að Trump er með mennta­málaráðuneytið í sigt­inu er að störf ráðuneyt­is­ins hafa í aukn­um mæli lit­ast af póli­tískri rétt­sýni og hug­mynda­fræðileg­um öfg­um. Það fjár­magn sem ráðuneytið út­deil­ir til banda­rískra mennta­stofn­ana mynd­ar ekki nema lítið brot af tekj­um þeirra (sveit­ar­fé­lög­in sjálf og rík­in hvert fyr­ir sig standa straum af 92% af kostnaði banda­ríska skóla­kerf­is­ins) en þessi smái fjár­hags­legi skerf­ur hef­ur samt dugað til að veita ráðuneyt­inu vald til að beita banda­rísk­ar mennta­stofn­an­ir mikl­um þrýst­ingi, bæði beint og óbeint.

Það var t.d. mennta­málaráðuneytið sem tók upp á því að túlka lög sem banna mis­mun­un á þann veg að skól­ar áttu ekki annarra kosta völ en að t.d. veita trans-stúlk­um óheft­an aðgang að íþrótt­a­starfi stúlkna, sal­ern­um þeirra og bún­ings­klef­um.

Með því að veikla ráðuneytið, og von­andi leggja það niður, er ein­fald­lega verið að minnka af­skipti al­rík­is­ins af mála­flokkn­um og auka sjálf­stæði ríkj­anna og sveit­ar­stjórn­arstigs­ins. Með öðrum orðum: verið er að færa mála­flokk­inn einu skrefi nær al­menn­ingi.

Nýr mennta­málaráðherra Trumps, Linda McMa­hon, er þegar kom­in nokkuð vel á veg með að leggja ráðuneytið niður en áður en Trump und­ir­ritaði nýju til­skip­un­ina hafði hún af­rekað það að fækka starfsliði ráðuneyt­is­ins um helm­ing.

Eins og með öll önn­ur stefnu­mál Trumps hafa marg­ir brugðist illa við þessu nýj­asta út­spili, og alls kyns hags­munaaðilar hafa þegar höfðað mál til að reyna að fá ákvörðun Trumps hnekkt. Í fljótu bragði er ekki að sjá að mála­rekst­ur­inn geti haldið vatni, og merki­legt að þeir sem eru óánægðast­ir með fram­takið virðast hafa litl­ar áhyggj­ur af hags­mun­um nem­enda en hafa þeim mun meiri áhyggj­ur af að vegið sé að hags­mun­um banda­rískr­ar kenn­ara- og emb­ætt­is­manna­stétt­ar. Það seg­ir kannski sína sögu.

Skoðanakann­an­ir sýna að um það bil helm­ing­ur Banda­ríkja­manna sér mennta­málaráðuneytið í nei­kvæðu ljósi og sker ráðuneytið sig úr að því leyti. Til­skip­un Trumps mun beina kast­ljós­inu að vinnu­brögðum ráðuneyt­is­ins og verður það ör­ugg­lega til þess að vin­sæld­ir stofn­un­ar­inn­ar minnka enn frek­ar, og því lík­legra en ekki að frum­varp um að loka ráðuneyt­inu mæti ekki mik­illi and­stöðu á þing­inu.

Mik­il út­gjöld en litl­ar fram­far­ir

Banda­ríska mennta­málaráðuneytið var sett á lagg­irn­ar seint í for­setatíð Jimmy Cart­ers heit­ins en fram að því heyrðu skóla­mál und­ir sam­eig­in­legt ráðuneyti heil­brigðis-, vel­ferðar- og mennta­mála. Í skipt­um fyr­ir að búa til sér­stakt ráðuneyti í kring­um mála­flokk­inn fékk Cart­er stuðning banda­ríska kenn­ara­sam­bands­ins í kosn­ing­un­um 1980, sem hann tapaði gegn Ronald Reag­an.

Síðan þá hef­ur mála­flokk­ur­inn sogað til sín fjár­magn og hafa út­gjöld á hvern nem­anda marg­fald­ast hvort sem leiðrétt er fyr­ir verðbólgu eður ei. Fjár­aust­ur­inn hef­ur ekki skilað miklu og er frammistaða banda­rískra grunn­skóla­nem­enda ekk­ert til að hrópa húrra fyr­ir.

Heilt á litið hef­ur geta banda­rískra nem­enda í stærðfræði skánað ögn síðan á 8. ára­tugn­um og lestr­ar­kunn­átta þeirra batnað ör­lítið. Hápunkti var náð um miðjan síðasta ára­tug en síðan þá hef­ur náms­ár­angri banda­rískra grunn­skólakrakka hrakað jafnt og þétt.

Í dag er staðan sú að einn af hverj­um fjór­um banda­rísk­um nem­end­um í kring­um 14 ára ald­ur­inn hef­ur ekki grunnþekk­ingu í stærðfræði og þriðji hver er und­ir lág­marks­viðmiðum í lestri. Í síðustu PISA-rann­sókn lentu Banda­rík­in í 34. sæti í stærðfræði, 16. sæti í vís­ind­um og 9. sæti í lestri.

Í Banda­ríkj­un­um þykir þessi frammistaða svo af­leit að jaðrar við neyðarástand en í sömu PISA-rann­sókn lentu ís­lensk­ir nem­end­ur í 37., 40. og 42. sæti og hef­ur lín­an legið niður á við allt síðan Ísland tók fyrst þátt í mæl­ing­unni. Á ég bágt með að skilja hvers vegna ís­lensk­ir for­eldr­ar standa ekki fyr­ir viku­leg­um mót­mæl­um á Aust­ur­velli, eða hvers vegna eng­inn ís­lensk­ur stjórn­mála­flokk­ur hef­ur gert það að sínu helsta bar­áttu­máli að ráðast í rót­tæk­ar breyt­ing­ar á ís­lenska skóla­kerf­inu.

Fengi ég að ráða myndi ég segja upp ný­gerðum kjara­samn­ingi við Kenn­ara­sam­band Íslands og breyta samn­ings­for­send­un­um þannig að kjör kenn­ara hækki (eða lækki) í hlut­falli við batn­andi eða versn­andi frammistöðu ís­lenska meðal­nem­andans í sam­ræmd­um próf­um og PISA-mæl­ing­um.

Les­end­ur geta rétt ímyndað sér hvers kon­ar hvata það myndi skapa hjá ís­lenskri kenn­ara­stétt að ár­ang­ur­s­tengja laun­in með þess­um hætti.

Með svona ár­ang­ur­s­teng­ingu myndu kenn­ar­arn­ir krefjast þess að fá meira sjálf­stæði í störf­um sín­um og þeir myndu sjálf­ir kalla eft­ir því að raða nem­end­um í bekki eft­ir getu. Enda vita það all­ir hvað bráðgeru börn­un­um – sem hífa upp ein­kunnameðaltalið fyr­ir ár­gang­inn – er gerður mik­ill óleik­ur með því að vera sett í bekk með alls kon­ar krökk­um þar sem hraði kennsl­unn­ar þarf að taka mið af þeim nem­anda sem á erfiðast með námið. Sum­ir kenn­ar­arn­ir myndu ólm­ir sér­hæfa sig í að draga fram það besta hjá bráðgeru börn­un­um og aðrir myndu helga sig því krefj­andi verk­efni að leiða fjölþjóðlega bekki fulla af börn­um inn­flytj­enda sem þurfa meiri stuðning á meðan þau ná tök­um á ís­lensk­unni.

Lé­leg­um kenn­ur­um yrði ekki leng­ur vært á sín­um vinnustað og ag­inn í skóla­starf­inu yrði allt ann­ar. Þjóðin öll myndi svo fagna því að sjá ein­kunn­ir barn­anna rjúka upp, og al­menn ánægja ríkja með að greiða ís­lensk­um kenn­ur­um fylli­lega verðskulduð of­ur­laun.

Hvað er það sem virk­ar í Kan­ada og Eistlandi?

Mikið er það skrítið að ekki skuli vera líf­legri umræða um hvernig mætti bæta ís­lenskt skólastarf. Auðvitað hefði, fyr­ir löngu, átt að bjóða til lands­ins sér­fræðing­um frá Singa­púr, Jap­an, Taív­an og Suður-Kór­eu og biðja þá að út­skýra í beinni út­send­ingu á öll­um rás­um hvers vegna nem­end­urn­ir þar standa sig svona miklu bet­ur en þeir ís­lensku. Gruni les­end­ur að vinnu­hark­an sé kannski of mik­il hjá skól­un­um í Asíu þá mætti í staðinn hóa í sér­fræðinga frá Kan­ada og Eistlandi sem eru nær Íslandi í menn­ingu og siðum en lentu mjög of­ar­lega í síðustu PISA-könn­un.

Mig grun­ar að góðan ár­ang­ur Eist­lands og Kan­ada megi skrifa á að þar hef­ur verið ýtt und­ir dreif­stýr­ingu skóla­kerf­is­ins. Í Eistlandi sjá sveit­ar­fé­lög­in um að reka skól­ana og hafa mikið sjálf­stæði þegar kem­ur að skipu­lagi skóla­starfs­ins. Ríkið greiðir til­tekna upp­hæð með hverj­um nem­anda og sama fjár­magn stend­ur einka­rekn­um skól­um til boða, og benda heim­ild­ir til að í kring­um 10% eist­neskra grunn­skóla­nem­enda gangi í einka­skóla. Allt býr þetta til ákveðinn sveigj­an­leika, gott aðhald og hæfi­lega sam­keppni í skóla­kerf­inu.

Í Kan­ada er ekk­ert mennta­málaráðuneyti að finna og eru skóla­mál­in á könnu hvers fylk­is fyr­ir sig. Sum fylk­in taka þátt í að fjár­magna einka­rekna skóla að hluta, en önn­ur gera það ekki. Heilt á litið virðast nem­end­ur við einka­skól­ana standa sig bet­ur, en kerfið býr líka til sam­keppni á landsvísu á milli fylkj­anna, enda vill ekk­ert fylki verða þekkt fyr­ir það að vera með lé­leg­asta skóla­kerfi Kan­ada.

Hve snjöll er vor æska?

Það kenndi ým­issa grasa á þingi Sam­taka iðnaðar­ins fyrr í þess­um mánuði og var þar m.a. rætt um hvort Ísland væri reiðubúið fyr­ir gervi­greind­ar­bylt­ing­una. Þar áætlaði Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri SI, að Ísland þyrfti á 9.000 nýj­um tækn­isér­fræðing­um að halda á næstu fimm árum til að drag­ast ekki aft­ur úr í gervi­greind­arkapp­hlaup­inu.

Sig­urður hef­ur ef­laust á réttu að standa, en ég held að brýn­ast af öllu sé að tryggja að þegar ís­lensk börn og ung­menni út­skrif­ast úr grunn- og fram­halds­skóla hafi þau fengið góða und­ir­stöðumennt­un svo að gervi­greind­in nýt­ist þeim sem skyldi.

nota gervi­greind snýst nefni­lega ekki um að hafa mikla tækni­mennt­un og kunna að skrifa tölvu­kóða, held­ur kall­ar miklu frek­ar á að geta hugsað skýrt og hafa ágæt­is vit í koll­in­um. The Econom­ist gerði þessu skil í ný­legri sam­an­tekt þar sem bent var á að þessi nýja tækni nýt­ist þeim best sem eru snjall­ir og fróðir fyr­ir en ávinn­ing­ur­inn miklu minni fyr­ir þá sem eru í besta falli í meðallagi fær­ir á sínu sviði. Á þetta jafnt við um fjár­festa á Wall Street og versl­un­ar­menn í Ken­ía, enda hægt að fá svo mikið meira út úr gervi­greind­inni ef hún er notuð af mann­eskju með gott inn­sæi og djúpa þekk­ingu á sínu sviði.

Í gervi­greind­ar­hag­kerf­inu mun það skilja á milli feigs og ófeigs að geta hugsað rök­rétt en líka vera frjór og skap­andi. Tækn­in kall­ar á það að hafa góðan skiln­ing á aðferðafræði til að geta lagt flók­in verk­efni og spurn­ing­ar rétt upp fyr­ir gervi­greind­ina, en fólk mun líka þurfa að hafa nægi­lega víða og djúpa þekk­ingu til að koma auga á það þegar gervi­greind­in rugl­ast í rím­inu.

Gervi­greind bæt­ir sum­sé ekki upp greind­ar­skort, nema síður sé.

Grein­in birt­ist upp­haf­lega í ViðskiptaMogg­an­um 26. mars.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka