Metfjöldi í mars

Icelanda­ir flutti met­fjölda farþega í mars eða 312 þúsund, 5% fleiri en á sama tíma í fyrra en flug­fram­boð jókst sömu­leiðis um 5%.

Í mánuðinum voru 38% farþega á leið til Íslands, 18% frá Íslandi, 37% voru tengif­arþegar og 7% ferðuðust inn­an­lands. Sæta­nýt­ing var 83,5% og stund­vísi var 84%, að því er fé­lagið grein­ir frá í til­kynn­ingu.

Fram kem­ur að tekju­mynd­un í mánuðinum hafi verið í takti við vænt­ing­ar stjórn­enda. Tekj­ur á hvern seld­an sætis­kíló­metra (e. yield) hafi numið 8,1 banda­rísku senti og hafi lækkað sam­an­borið við mars á síðasta ári, sem aðallega megi rekja til þess að pásk­ar voru í mars í fyrra.

Þá seg­ir að seld­ir blokktím­ar í leiguflugi hafi verið 50% fleiri en í mars í fyrra og frakt­flutn­ing­ar hafi auk­ist um 3%. Kol­efn­is­los­un á hvern tonn­kíló­metra dróst sam­an um 3% vegna fleiri ferða á hag­kvæm­ari B737 MAX og A321 LR-vél­um.

Ánægju­leg staða

„Það er ánægju­legt að sjá farþegum fjölga um 5% milli ára, þrátt fyr­ir að pásk­arn­ir hafi verið í mars í fyrra. Þetta und­ir­strik­ar að var­an og þjón­ust­an sem við bjóðum er sam­keppn­is­hæf og eft­ir­sókn­ar­verð allt árið um kring, þar með talið yfir vetr­ar­mánuðina þegar eft­ir­spurn er al­mennt minni. Á sama tíma náðum við að viðhalda góðri stund­vísi og áfram­hald­andi hárri sæta­nýt­ingu.

Bók­un­arstaðan fyr­ir sum­arið á markaðnum til Íslands er betri nú en á sama tíma í fyrra frá öll­um mörkuðum – N-Am­er­íku, Evr­ópu og frá fjar­mörkuðum. Eft­ir­spurn á markaðnum frá Íslandi er einnig mun sterk­ari en á sama tíma í fyrra. Eft­ir­spurn á markaðnum um Ísland er góð, en vegna áherslu okk­ar á aðra markaði eru bók­an­ir á þeim markaði færri en á sama tíma í fyrra. Bók­un­arstaðan er því al­mennt sterk­ari fyr­ir sum­arið en á sama tíma í fyrra en við höf­um orðið vör við að hægst hef­ur á bók­un­um til lengri tíma sem er skilj­an­legt í ljósi óvissu í alþjóðlegu efna­hags­um­hverfi.

Ný­lega efld­um við sam­starf okk­ar við Jet­Blue sem ger­ir meðlim­um vild­ar­klúbbs þeirra kleift að greiða fyr­ir flug hjá Icelanda­ir með vild­arpunkt­um. Við ger­um ráð fyr­ir því að þetta stuðli að auk­inni eft­ir­spurn eft­ir flugi til Íslands hjá viðskipta­vin­um Jet­Blue. Þá er ánægju­legt að sjá áfram­hald­andi sterka eft­ir­spurn eft­ir Saga Premium-vör­unni okk­ar auk þess sem vild­ar­klúbbur­inn okk­ar hef­ur stækkað mikið síðustu miss­er­in en meðlima­fjöldi nálg­ast óðfluga tvær millj­ón­ir,“ er haft eft­ir Boga Nils Boga­syni, for­stjóra Icelanda­ir, í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK