Gagnast ekki íslenskum fyrirtækjum

Frosti Sigurjónsson
Frosti Sigurjónsson mbl.is

Hlutabréfamarkaðurinn hérlendis gagnast ekki íslenskum fyrirtækjum þar sem kostnaður og regluverk er of mikið til að lítil og miðlungsstór fyrirtæki fari á markað og verði mögulegur fjárfestingakostur. Þetta segir Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fjárfestir, í samtali við mbl.is, en hann hefur lengi verið viðloðinn fyrirtækjarekstur og sprotafyrirtæki hérlendis.

Virkar ekki á Íslandi

Segir hann að reglugerðir um verðbréfamarkað sem hafi verið innleiddar frá Evrópusambandinu passi ekki fyrir Ísland og þann litla markað sem er hér á landi. „Það er verið að vernda fjárfesta frá því að gera mistök, að tapa peningum. Þetta virkar alls ekki á Íslandi af því að þessar reglugerðir og skyldur sem eru lagðar á fyrirtæki og stjórnir þeirra eru svo miklar að smá og meðalstór fyrirtæki á Íslandi geta ekki uppfyllt reglugerðir sem henta milljóna-samfélögum.“

Frosti leggur til að reglur verði miðaðar við stærð markaðarins hérlendis þannig að smærri fyrirtæki sem eru að byrja rekstur eigi auðveldara með að sækja til fjárfesta. „Við ættum að setja lög um að það væri heimilt með ákveðnum hætti að skrá félög á skipulagðan markað sem er samt þannig að hann gefur ekki út nein gæðavottorð fyrir fyrirtækið.“

Áfram þörf á Kauphöllinni

Það verður þó enn mikil þörf fyrir skipulagðan markað með sterkum reglum um upplýsingaskyldu og sem gefur út gæðavottorð, þar sem mörg fyrirtæki falli undir þann flokk. Sá markaður megi hins vegar ekki verða að viðmiði fyrir viðskipti með bréf í öllum fyrirtækjum enda sé himinn og haf á möguleikum og getu þessara fyrirtækja til að vera á skráðum markaði eins og Kauphöllinni.

Markaður með hlutabréf sem ekki eru skráð í Kauphöllina hefur áður verið til staðar hérlendis og var þá talað um gráa markaðinn. Nokkrir bankar höfðu tekið sig saman og komið upp grunni þar sem haldið var utan um tilboð og viðskipti með félög sem voru þar skráð. Eftir mikið verðfall í kjölfar netbólunnar og eftir Decode-ævintýrið voru strangari reglur settar um viðskipti með óskráð verðbréf og í kjölfarið fækkaði mikið fyrirtækjum á gráa markaðinum og að lokum lagðist hann alveg af.

Áhættusöm fyrirtæki

Aðspurður um það hvort ekki sé hætta á að fólk tapi aftur peningum ef settur verður upp nýr grár markaður segir Frosti að það sé mögulegt. Þessi markaður verði alltaf áhættufjárfesting, en þó að hann sé áhættusamur megi ekki loka alveg á hann. Telur hann réttast í tilkynningu um þennan nýja markað segi svo: „Hér eru skráð hættuleg fyrirtæki sem fólk getur tapað pening á, við segjum ekkert um gæði þeirra, en þetta eru hlutabréfin, fyrirtækin, hugmyndirnar og ef þið viljið kaupa er það á ykkar ábyrgð.“ Þessi áhætta megi þó ekki útiloka fólk frá því að geta keypt í nýsköpun, enda segir Frosti að mesta gróðavonin sé að kaupa í nýjum fyrirtækjum sem eru að koma sér af stað.

Þegar félög fara í hlutafjárútboð og bjóða almenningi að kaupa í félaginu þá fellur á það svokölluð útboðsskylda og þá þarf að gera útboðslýsingu. Samkvæmt Frosta fer verð fyrir slíka útboðslýsingu ekki undir 5 til 10 milljónir, enda þurfi að uppfylla gríðarlega ströng skilyrði og fyrir lítil fyrirtæki sem eru að leita að 2 til 5 milljónum til að ýta hugmyndinni sinni úr vör sé ekki mögulegt að fara í slíka pappírsvinnu.

Þurfum að átta okkur á vandamálinu

„Fyrstu skrefin eru að átta sig á því að þetta er vandamál. Við erum að gera Íslandi óleik með því að setja svona strangar og miklar byrðar á lítil fyrirtæki sem vilja geta boðið sín hlutabréf almenningi,“ en Frosti telur að í framhaldi af meiri möguleikum fyrir sprotafyrirtæki geti Ísland orðið eftirsóttur staður fyrir bæði sprotafyrirtæki og fjárfesta sem horfi til að kaupa í sprotafyrirtækjum.

„Ef við ætlum að bjóða íslenskum fyrirtækjum, athafnamönnum, fjárfestum og almenningi upp á tækifæri til að eiga í íslensku atvinnulífi og uppgangi þess, þá þurfum við að sníða reglurnar að 300 þúsund manna samfélagi, en ekki að 30 milljóna samfélagi,“ segir Frosti og bætir við að þegar þetta sé komið í lag verði minni þörf fyrir ríkisstyrki inn í nýsköpunarfyrirtækin þar sem almenningur geti á auðveldari hátt fjárfest í þeim fyrirtækjum sem hann telur arðvænleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK