Mikil spenna ríkir fyrir leiki Íslands og Króatíu í umspili um að komast í lokakeppni HM í Brasilíu á næsta ári. Miðasala á leikinn hefst fljótlega en KSÍ hefur gefið út að miðaverð verði óbreytt frá því sem verið hefur. Uppselt hefur verið á síðustu leiki landsliðsins og færri komist að en vilja. Búast má við að eftirspurn eftir miðum á leikinn við Króatíu verði mun meiri enda aldrei verið meira í húfi fyrir íslenska knattspyrnu.
Rökin fyrir óbreyttu miðaverði eru auðvitað að gefa sem flestum tækifæri á að komast á leikinn og halda verðinu hóflegu. Þau eru skiljanleg en sum hagfræðileg lögmál eru hins vegar óhrekjanleg. Ef vara er seld langt undir markaðsverði myndast umframeftirspurn sem að jafnaði þrýstir verði upp. Ef seljandinn bregst ekki við með því að hækka verðið myndast annar markaður með vöruna þar sem verðið er hærra. Miðar á leikinn geta auðveldlega gengið kaupum og sölum eftir upprunaleg kaup. Spurningin er bara hjá hverjum umframhagnaðurinn lendir. Ef KSÍ myndi til dæmis hækka alla miða um 2.000 kr. er óhætt að gera ráð fyrir að það verði alveg jafn uppselt. Það þýddi um 20 milljónir í aukatekjur fyrir KSÍ. Að óbreyttu geta svona viðbótartekjur lent hjá þeim sem kunna að kaupa miða á undirverði hjá KSÍ og selja á markaðsverði sem óhjákvæmilega verður hærra vegna umframeftirspurnar. Þetta er vafsöm hagfræði hjá KSÍ þótt rökin fyrir óbreyttu miðaverði séu skiljanleg.