Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar sem gefið var út síðla sumars er ítarleg samantekt um byggingu nýrrar brúar yfir Múlakvísl. Fyrri brú eyðilagðist í flóði í júlí 2009 og náðist að útbúa bráðabirgðabrú á innan við viku. Sannarlega þrekvirki að koma bráðabirgðabrú fyrir á svo skömmum tíma. Hins vegar er fyrirkomulag framkvæmdar við nýju brúna mikið umhugsunarefni. Færa má fyrir því góð rök að umsvif hins opinbera, bæði í verklegum framkvæmdum, eftirliti, hönnun og tæknivinnu sé of mikil og ekki til þess fallin að styðja við ráðdeild í ríkisbúskapnum.
Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar 17. tbl./14 segir: „Vegagerðin hafði umsjón með stjórnun, hönnun og smíði á bráðabirgðabrú, jafnframt sem hönnun, umsjón og eftirlit með nýjum framkvæmdum var á hendi starfsfólks Vegagerðarinnar. Hönnunardeild Vegagerðarinnar sá um hönnun brúar, vegar og varnargarða, gerð útboðsgagna og rannsóknir þeim tengdum. Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar sáu um framleiðslu og niðurrekstur á steyptum staurum undir brúna og Eykt ehf. sá um byggingu brúar og Þjótandi ehf. um byggingu varnargarða“.
Eina skynsamlega ástæðan fyrir því að Vegagerðin hagar málum með þessum hætti er að stofnunin hefur yfir nægum mannskap og tækjum að ráða til að fara í svona verkefni. En hvað var brúarvinnuflokkurinn og hönnunarliðið að gera áður en ráðast þurfti í þessa framkvæmd? Kannski að bíða? Miðað við það fé sem hefur verið til ráðstöfunar hjá til vegaframkvæmda síðustu ár má allavega ekki gera ráð fyrir að nóg hafi verið að gera.
Í Framkvæmdafréttum kemur ennfremur fram að Framkvæmdadeild Vegagerðarinnar hafi haft umsjón með framkvæmdinni og eftirlit á staðnum var framkvæmt af tæknideild Vegagerðarinnar á Suðursvæði. Það að opinbert fyrirtæki hanni mannvirki fyrir sjálft sig og hafi svo eftirlit með framkvæmdinni þykir hvergi gott fyrirkomulag og bíður ýmsum hættum heim. Þá er þetta fyrirkomulag í beinni samkeppni við verkfræðistofur og verktaka sem hafa bæði yfir að ráða tækjum, mannskap og þekkingu til að sinna svona verkefnum. Með skynsamlegri útboðsstefnu má örugglega nýta opinbert fé til framkvæmda og eftirlits með hagkvæmari hætti heldur en gert var við byggingu nýrrar brúar yfir Múlakvísl.
Fé til opinberra framkvæmda og viðhalds hefur dregist jafnt og þétt saman síðustu ár án þess að starfsfólki hjá opinberum aðilum hafi fækkað að neinu ráði og á sama tíma hefur útboðum fækkað mikið. Hönnun, eftirlit og framkvæmdir virðast núna vera oftar á hendi ríkisstofnana en áður eins og fréttir af nýrri brú yfir Múlakvísl bera með sér. Út frá fjárhagslegum hagsmunum ríkissjóðs og almennri skilvirkni í hagkerfinu er þetta hvorki hagkvæmt né skynsamlegt, auk þess sem það býður ýmsum hættum heim að hönnun, framkvæmd og eftirlit sé á hendi sama opinbera aðilans. Mikilvægt er að ríkisstofnanir dragi eins og kostur er úr innvistun verkefna og láti fyrirtækjum á samkeppnismarkaði það eftir að bjóða í og vinna verkefni á þeirra sérsviði.