c

Pistlar:

23. febrúar 2015 kl. 10:06

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Óþægileg áminning

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru um þessar mundir óþægilega minntir á einn helsta veikleika íslenska hagkerfisins síðustu árin – of lítið hefur verið um fjárfestingar. Götur borgarinnar liggja mjög víða undir skemmdum og hefur gatnakerfið þolað illa ágang veðurs undanfarið. Sumstaðar er beinlínis hættulegt að keyra og fjölmargir bílar hafa skemmst. Ástæðan fyrir þessu er öðru fremur sú að fjárfestingar hafa undanfarin ár verið afar litlar, sérstaklega opinberar fjárfestingar í margvíslegum innviðum. 

Með opinberum fjárfestingum er einkum átt við fjárfestingar í vegum, götum, brúm, byggingum og holræsum o.sfrv. Sem dæmi má nefna að á föstu verðlagi hafa fjárfestingar í vegum og brúm dregist saman um 65% á milli áranna 2008 og 2013 og í heild sinni hefur opinber fjárfesting minnkað um 47% á sama tíma. Afleiðing þessa birtist okkur nú skýrt á götum borgarinnar. Benda má á fjölmörg önnur dæmi.

Ástæðan fyrir þessari þróun er auðvitað bágborinn fjárhagur opinberra aðila í kjölfar efnahagskreppunnar. Þegar skeri þurfti niður hjá hinu opinbera var einkum skorið niður í framkvæmdum og viðhaldi en minni áhersla lögð á að skera niður í margvíslegum rekstri. Að auki jókst innvistun verkefna hjá opinberum aðilum, þ.e. verkefni voru síður boðin út á almennum markaði. Færa má sterk rök fyrir því að það sé ekki hagkvæm ráðstöfun á opinberu fé.

Umfang fjárfestinga er gjarnan skoðað sem hlutfall af landsframleiðslu. Frá árinu 1990 hefur opinber fjárfesting að jafnaði verið um 4% af landsframleiðslu en árin 2006 til 2008 var hlutfallið nokkru hærra. Hins vegar hefur þetta hlutfall hrunið síðustu ár og er nú aðeins um 2,5% af landsframleiðslu. Það hlutfall er einfaldlega hættulega lágt og veldur því að eignir okkar rýrna samanber ástandið á götum höfuðborgarinnar.

Miðað við þessar tölur má segja að árlega vanti um 1,5% af landsframleiðslu í opinberar framkvæmdir til að sinna eðlilegri fjárfestingaþörf í innviðum samfélagsins. Það jafngildir um 30 milljörðum króna og þá er ekki tekið tillit til þeirrar uppsöfnuðu þarfar sem myndast hefur síðustu ár. Ef ekki fer úr að rætast munu margvíslegir aðrir innviðir fara taka á sig sömu mynd og götur Reykjavíkur.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira