Umræða um að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands hefur farið nokkuð hátt á síðustu mánuðum. En hún ristir ekki mjög djúpt og lítið hefur verið snert á ýmsum þáttum málsins. Þar af leiðandi er mörgum spurningum ósvarað, bæði hvað varðar þjóðhagslegan ávinning verkefnisins og eins um áhættuna sem í því felst.
Í viðleitni til þess að upplýsa um nokkra þætti þessa máls átti Jonathan Brearly frá Atlantic Superconnection fundi með mögulegum hagsmunaaðilum á Íslandi, þar með talið Samtökum iðnaðarins. Atlantic Superconnection hefur lýst áhuga á að fjármagna lagningu strengsins, en fyrirtækið er í eigu breskra vogunarsjóða.
Í máli Brearlys á fundinum kom fram að markaðsverð á raforku í Evrópu getur aldrei staðið undir lagningu sæstrengsins. Flutningskostnaðurinn er einfaldlega of hár og verðmunur á milli markaða of lítill.Til þess að sækja fjármagn í sæstrengsverkefnið talaði Brearly um svokallað CfD sem skilgreint er sem “Long-term contracts to encourage investment in new, low-carbon generation“. Þessir styrkir hafa hingað til eingöngu verið veittir fyrirtækjum sem starfa í Bretlandi. Því hvort Íslendingum stæði það til boða er ósvarað.
Hann sagði ennfremur að skilyrði þess að sala á íslenskri raforku félli undir CfD niðurgreiðslukerfi Breta væri að orkukostirnir væru nýir, þannig að um raunlækkun væri að ræða á losun CO2. Af þessu leiddi að ekki væri hægt að selja raforku um sæstreng frá starfandi virkjunum á Íslandi, enda fælist ekki í því viðbótarlosun. Óvíst er hvort nýjar túrbínur í eldri virkjunum yrðu samþykktar og eins hvort hægt yrði að selja umframorku sem þegar er ónýtt í íslenska raforkukerfinu.
Brearly sagði að sæstrengur sem borið gæti allt að 1.200 MW þyrfti að byggja á að minnsta kosti 1.000 MW af raforku frá nýjum orkukostum. Hann taldi þetta lítið mál þar sem hægt væri að virkja 10.000 MW á Íslandi og því væri þetta einungis lítið brot af því sem til ráðstöfunar væri. Spurningin er hvað þingmenn á Alþingi sem nú þrátta um rammaáætlun segja um þessa framtíðarsýn.
Það er óljóst hvort Íslendingar geta orðið fyrstir allra utan Bretlands til að fá CfD samninga. En ef svo færi vaknar stór spurning: hvernig ættum við að fóðra sæstreng með 1.000 nýjum megavöttum á sama tíma og illmögulegt virðist vera að koma nokkrum virkjanaframkvæmdum í gang?
Orkuframleiðsla á Íslandi hefur vaxið að jafnaði um 40 MW á ári síðustu áratugi. Þörf sæstrengs jafngildir 25 ára vexti raforkuframleiðslu og á því tímabili þyrfti öll ný framleiðslugeta fara í strenginn. Líklega er það óraunsæ forsenda að uppbygging raforkuframleiðslu á Íslandi á næstu 25 árum verði jafn mikil og síðustu áratugi. Þess vegna verður þetta að teljast mikil bjartsýni af hálfu Brearlys.
Spurningin um hvaðan þessi þúsund megavött eiga að koma er áleitin. Ekki einungis út af sæstrengnum, heldur þurfa Íslendingar líka að huga að uppbyggingu íslensks atvinnulífs til framtíðar. Hvaðan kemur orkan til áframhaldandi uppbyggingar íslensks atvinnulífs – á sama tíma og við tryggjum Bretum orkuöryggi með íslenskri orku?
Það er mikilvægt að skoða þetta stóra og flókna mál frá mörgum sjónarhornum þannig að allar ákvarðanir byggi á traustum grunni.
Hér geta áhugasamir lesendur kynnt sér CfD samninga í Bretlandi.