Fregnir af miklum hagvexti, ríflegum launahækkunum, fasteignaverðshækkunum og fjölgun byggingakrana hafa ýtt af stað umræðu þess efnis að staða efnahagslífsins sé farið að minna óþægilega mikið á ástandið 2007. Orð eins og ofþensla og bólumyndun heyrast oftar en áður. Þó að einstaka þættir séu líkir er þetta í veigamiklum atriðum rangt. Í grunninn er hagkerfið miklu heilbrigðara nú en árið 2007 þótt sannarlega séu veikleikar í umhverfinu, ekki síst í tengslum við gjaldeyrishöft og ríflega kjarasamninga úr takti við efnahagslegan raunveruleika.
Á árunum fyrir hrun voru bæði einkaneysla og fjárfestingar drifnar áfram af gegndarlausri skuldsetningu. Alþjóðlegir vextir voru lágir, íslenskir vextir háir og engar takmarkanir á flæði ódýrs lánsfjár inn í landið m.a. vegna mikils vaxtamunar. Erlend staða þjóðarbúsins versnaði stöðugt, viðskiptahallinn var mikill, krónan alltof sterk og kaupmátturinn í raun falsaður. Neyslu- og fjárfestingaákvarðanir voru teknar á óraunsæjum forsendum. Eignaverð bólgnaði og ýtti undir neyslu og frekari skuldsetningu. Hlutabréfaverð reis ört og ýtti undir frekari skuldsetningu og neyslu. Ójafnvægið í þjóðarbúskapnum var mikið og ósjálfbært. Gengisfall krónunnar var óhjákvæmilegt þótt engan hafi órað fyrir því hruni sem varð.
Undanfarin ár hefur einkaneyslan hins vegar verið drifin áfram af vaxandi kaupmætti og meiri atvinnu. Á sama tíma hafa skuldir bæði heimila og fyrirtækja farið lækkandi. Hagstjórn síðustu ára hefur sérstaklega miðað að því að styðja við einkaneyslu, að sumu leyti á kostnað fjárfestinga. Undirrót einkaneyslu er auðvitað vöxtur í vissum geirum atvinnulífsins, einkum ferðaþjónustu. Þetta er grundvallarmunur á 2007 og 2015.
Í dag er aðgangur að lánsfé mun takmarkaðari og kröfur um tryggingar og eiginfjárframlag miklu meiri þegar kemur að fjármögnun. Það hefur í för með sér aðhaldssamari ákvarðanir um fjárfestingar og neyslu. Við erum áhættufælnari en áður.
Sérstaklega hefur verið talað um þenslu í byggingariðnaði. Sem betur fer hefur greinin verið að vaxa síðustu misseri en þetta verður að skoðast í í samhengi við þann gríðarlega samdrátt sem varð í greininni árin eftir hrun. Fjöldi starfandi í greininni nú er aðeins rúmlega helmingur þess sem hann var árið 2008. Það gengur ágætlega í vissum greinum byggingariðnaðar en ástandið víða rólegt, einkum þegar kemur að framkvæmdum í innviðum samfélagsins. Raunar er mikil uppsöfnuð fjárfestingaþörf í landinu, bæði opinber í innviðum sem og í atvinnulífi og íbúðarhúsnæði.
Á árunum 2005-2007 voru byggðar ríflega 4.000 nýjar íbúðir á hverju ári á meðan undirliggjandi þörf samfélagsins er á bilinu 1.500-1.800 íbúðir. Síðustu 6 árin hafa aðeins verið byggðar 400-700 íbúðir á ári. Það er því fremur skortur á húsnæði sem þrýstir upp verði á íbúðum og leigu. Uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði er mikil líkt og ástand á leigumarkaði ber merki um. Á árunum fyrir hrun var það öðru fremur offramboð af ódýru lánsfé sem dreif markaðinn áfram og „2007 byggingarstíllinn“ var allsráðandi.
En þótt samlíking áranna 2007 og 2015 sé í megindráttum röng eru ákveðin atriði lík og vekja ugg. Raungengi krónunnar er hægt og bítandi að nálgast það sem það var árið 2007 á mælikvarða launa. Það skýrist einkum af því að launahækkanir á Íslandi eru margfalt meiri en í samkeppnislöndum okkar. Um leið veikist samkeppnishæfni útflutnings frá Íslandi. Að óbreyttu mun Ísland verða óbærilega dýrt fyrir erlenda ferðamenn innan fárra ára.
Árið 2007 voru skattar lækkaðir á sama tíma og útgjöld hins opinbera jukust . Ríkið lagði ekkert af mörkum í baráttu við verðbólgu og þenslu. Það sama á að mörgu leyti við í dag þótt skuldastaða ríkissjóðs sé talsvert verri en 2007. Vextir fara hækkandi og vaxtamunur við útlönd eykst. Nafngengi krónunnar styrkist og styður við verðbólgumarkmið – hvort tveggja vinnur gegn samkeppnishæfni útflutnings- og samkeppnisgreina. Hættan á því að öflug þekkingarfyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi kjósi að færa a.m.k. hluta starfsemi úr landi er raunveruleg, þrátt fyrir að höftin séu á undanhaldi.
Um þessar mundir er hagvöxtur mikill, kaupmáttur vex, verðbólga er lítil og gengið er að styrkjast. Á sama tíma er samið um laun langt umfram framleiðnivöxt sem að óbreyttu leiðir okkur á þekktar slóðir. Við höfum áður upplifað víxlverkun launahækkana og vaxandi verðbólgu. Full ástæða er til að beita hagstjórn við hæfi og huga að launamyndun og skipulagi á vinnumarkaði. En grunnorsakir aukinna efnahagsumsvifa nú eru sem betur fer af allt öðrum toga en árið 2007.