Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði nýlega að lágt lóðaverð skili sér ekki í lægra fasteignaverði og vísaði þar í hugmyndir Samtaka iðnaðins og fleiri um að sveitarfélög lækki lóðaverð. Á meðan sveitarfélög takmarka framboð af lóðum er þetta alveg rétt – markaðurinn á alltaf síðasta orðið. Það er til lítils að lækka verð á einstaka lóðum í þeirri von að lækka verð á húsnæði eða stuðla að auknum íbúðabyggingum. Kjarni vandans er að framboðið er of lítið og afleiðing þess er að ekki er byggt nóg til að mæta brýnni þörf. Í ofanálag er verið glíma við íþyngjandi byggingarreglugerð, háan fjármagnskostnað á framkvæmdatíma bygginga og dýr leyfisgjöld.
Það er óumdeild staðreynd að alvarlegur skortur er á húsnæði. Birtingarmynd þess er hækkandi fasteigna- og leiguverð. Ungt fólk á í miklum erfiðleikum við að koma yfir sig þaki vegna þessa og margt eldra fólk á erfitt um vik með að komast í húsnæði við hæfi. Undanfarin 6-7 ár hefur aðeins verið hafin bygging á 200-700 nýjum íbúðum árlega hverju ári á meðan þörf er a.m.k. 1.500 nýjar íbúðir árlega. Á sama tíma hefur lóðaframboð verið takmarkað og lóðaverði verið haldið háu.
Eitt af því sem margir sveitastjórnarmenn sjá ofsjónum yfir er að byggingaverktakar geti hagnast sérstaklega á því að fá hagstæðar lóðir hjá sveitarfélögum. Þessi rök eru glórulaus. Ef það er engin hagnaðarvon í að byggja mun enginn verktaki leggja í það. Að byggja íbúðarhúsnæði er ekki samfélagsþjónusta heldur þarf það vera eðlileg og ábótasöm atvinnustarfsemi. Hins vegar er þak yfir höfuðið grunnþörf allra og það leggur ríkar kröfur á hendur sveitarfélaga og hins opinbera í heild sinni að mæta þeirri þörf. Enginn hefur óskað eftir því að lóðir eða önnur gæði séu seld á undirverði.
Lykilatriði er að samhliða lækkun á lóðaverði þarf nauðsynlega að auka framboð á lóðum af hálfu sveitarfélaga. Raunar er aukið framboð leiðin til að lækka verð og gera þannig verktökum og öðrum kleift að byggja. Það er til lítils fyrir einstök sveitarfélög að lækka verð á einstaka lóðum – það mun ekki hreyfa mikið við markaðnum. Nauðsynlegt er að til komi samstillt átak fleiri sveitarfélaga við að tryggja eðlilegt framboð. Ef sveitarfélög halda áfram að takmarka framboð á lóðum skapa þau fyrst og fremst hvata til að byggja dýrt húsnæði. Hátt lóðarverð og strangar kröfu gera húsnæðisvandann að viðvarandi vandamáli sem gæti jafnvel magnast. Það er sameiginlegt verkefni atvinnulífs og stjórnvalda að vinda ofan af þessum vanda.