Ímyndum okkur að bakarí framleiði 1.000 brauðhleifa á hverjum degi. Af þessum 1.000 brauðhleifum fara 750 stykki samkvæmt samningum alltaf til sama kaupanda í samræmi við samkomulagi þar að lútandi. 200 fara til annarra stórra viðskiptavina en hin 50 brauðin eru sett fram í búð þar sem þau eru seld í lausasölu til margvíslegra viðskiptavina. Talsverð afföll eru af brauði í lausasölu en að meðaltali seljast um 45 brauðhleifar. Afgangurinn er í lok dags gefinn öndum á tjörninni eða hent.
Verðið á brauðinu er mismunandi eftir því hvort það eru selt í stórum sendingum eða í lausasölu. Brauðið í bakaríinu er dýrara þar sem á það leggst kostnaður við búðarrekstur og verðleggja þarf afföllin af brauðinu. Stóri kaupandinn fær einnig lægra verð vegna þess að það skiptir bakarann miklu máli að hafa traustan viðskiptavin sem getur skuldbundið sig til langs tíma. Það færir bakaranum mikinn stöðugleika og fyrirsjáanleika í reksturinn – sem aftur er forsenda fjárfestinga í öflugum og hagkvæmum framleiðslutækjum, endurnýjunar og viðhalds, ráðninga starfsfólks og góðra launakjara. Færa má rök fyrir því að forsenda þess að hægt sé að selja brauð á viðráðanlegu verði í lausasölu sé einmitt stærðarhagkvæmnin sem stóri viðskiptavinurinn tryggir.
En hver er boðskapurinn? Sú söguskoðun er lífseig á Íslandi að almenningur á Íslandi sé í reynd að niðurgreiða raforku til álvera og annarra stóriðjuvera. Þrátt fyrir að nokkuð auðvelt sé að hrekja þá fullyrðingu er tungutak raforkuheimsins óþjált og sannleikurinn kemst ekki alltaf til skila. En dæmið að ofan er um margt líkt raforkumarkaði á Íslandi. Stóriðjan kaupir ríflega 75% af því rafmagni sem keypt er. 18% er selt á almennum markaði og þar af kaupa heimilin í landinu aðeins um 5%. Mismuninn kaupa önnur fyrirtæki og hið opinbera fyrir stofnanir sínar og innviði og auk þess sem talsverð töp eru í kerfinu.
Nú er spurningin þessi: Er með einhverju móti hægt að færa fyrir því rök að kaupendur að fáeinum brauðum í lausasölu séu að greiða niður brauð til stóra viðskiptavinarins? Það er vandséð jafnvel þótt verð á brauði í lausasölu sé hærra. Með nákvæmlega sama hætti má segja að það sé fjarstæðukennt að almenningur sé að niðurgreiða raforkuverð til stóriðju. Raunar má fullyrða að forsenda fyrir lágu raforkuverði á Íslandi til almennra notenda sé sú uppbygging sem átt hefur sér stað vegna raforkuvinnslu til stóriðju. Óumdeilt er að raforkuverð til heimila á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum.
Þá er ótalinn annar ávinningur efnahagslífsins af stóriðju. Í fyrra voru fluttar út afurðir stóriðju fyrir tæpa 260 milljarða. Tæplega 40% af þessum tekjum verða eftir í landinum en þær fara í kaup á raforku, innlenda vöru og þjónustu, greiðslu launa og skatta. Stóriðjan skapar ekki aðeins verðmæti heldur dregur úr sveiflum og er mikilvæg stoð í efnahagslífinu ásamt öðrum atvinnugreinum. Því fleiri sem stoðirnar eru – þeim mun styrkari og stöðugari er undirstaða lífskjara á Íslandi.
Fólk getur af ýmsum ástæðum verið á móti stóriðju. En það að almenningur sé að niðurgreiða raforku til stóriðju stenst ekki skoðun. Sú lífseiga söguskoðun er einfaldlega röng.