c

Pistlar:

15. desember 2016 kl. 13:44

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Styrking krónunnar er ferðamönnum að kenna (eða þakka)

Vaxandi áhyggjur eru af styrkingu krónunnar og ljóst að samkeppnishæfni útflutnings og samkeppnisgreina fer minnkandi. Gengi krónunnar hefur frá áramótum styrkst um 17% og enn meira gagnvart sumum gjaldmiðlum, t.d. breska pundinu. Raungengi krónunnar er 23% hærra nú en í ársbyrjun 2015 en það mælir hlutfallslegt verðlag eða laun milli Íslands og umheimsins í sömu mynt. Áhyggjur ferðaþjónustunnar af stöðunni hefur verið áberandi upp á síðkastið og hafa sumir gengið svo langt að spá öðru hruni vegna þessa – Ísland sé að verða óbærilega dýrt fyrir ferðamenn. Sama staða snýr auðvitað að öllum öðrum útflytjendum sem fá nú minna fyrir sinn snúð. En hvað skýrir þessa þróun, hverjar eru afleiðingarnar og hvað er til ráða?

Öðru fremur er það uppgangur ferðaþjónustunnar og fjölgun erlendra ferðamanna sem skýrir styrkingu krónunnar. Sem betur fer hefur gengið þokkalega í ýmsum öðrum útflutningsgreinum líka en staðan nú er erfið fyrir útflytjendur. Viðskiptajöfnuður það sem af er þessu ári er jákvæður um 100 milljarða króna þrátt fyrir tæplega 90 milljarða króna halla á vöruskiptum.

Rétt er hins vegar að hafa áhyggjur af sterkri stöðu krónunnar. Seðlabankinn hefur nýlega lækkað vexti og beinlínis gefið til kynna að gengið sé orðið óþægilega sterkt. Ennfremur hefur Seðlabankinn verið býsna virkur á gjaldeyrismarkaði og inngrip bankans eru um 56% af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði síðan í ársbyrjun 2015. Samt styrkist gengið.

Styrking krónunnar er þannig öðru fremur þeim gífurlega fjölda erlendra ferðamanna sem hingað hafa streymt að kenna. Almenningur á Íslandi myndi kannski fremur segja „að þakka“ fremur en „að kenna“ enda hefur þessi þróun ýtt undir vaxandi kaupmátt og hagvöxt síðustu misseri. En afleiðingarnar eru alvarlegar þegar til lengri tíma er litið þar sem vaxtarsprotar íslensks atvinnulífs þrífast illa í ofursterkri krónu og háum vöxtum.

En hvað er til ráða? Áframhaldandi lækkun vaxta, aukin inngrip oþh. eru dæmi um aðgerðir sem myndi veikja krónuna en sögulega hefur orðið sjálfvirkur viðsnúningur í gengi krónunnar með reglulegu millibili þegar raungengi krónunnar og innlent kostnaðarstig er orðið óbærilega hátt og ósjálfbært. Við þær aðstæður sem nú eru uppi er ekki óhugsandi að bakslag í ferðaþjónustinni, m.a. vegna hækkandi gengis krónunnar, geti sett slíka atburðarás í gang. Færri myndu sækja Ísland heim enda óbærileg dýrt sem þýddi minnkandi eftirspurn eftir krónum og lækkun gengis. Hjákátlegt enda styrking krónunnar síðustu misseri öðru fremur erlendum ferðamönnum að kenna.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira